2.10.1997 0:00

Fimmtudagur 2.10.1997

Klukkan 13.00 flutti ég ávarp á ráðstefnu um markaðssetningu á netinu, sem haldin var í Loftkastalanum. Þegar ég kom þangað uppgötvaði ég, að mér hafði láðst að setja ræðuna í töskuna mína. Sem betur fer var löng röð ráðstefnugesta að skrá sig til þátttöku og skaust Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, með mig í ráðuneytið að sækja ræðuna og komum við aftur í tæka tíð. Klukkan 14.00 hitti ég nemendur úr framhaldsskólanum á Sauðárkróki, sem hjóluðu í bæinn til að árétta nauðsyn þess, að heimavistarbygging væri reist við skólann en nefnd vinnur nú að undirbúningi málsins.