Þriðjudagur 15.12.1998
Rannsókna- og vísindamálaráðherra Austurríkis bauð starfsbræðrum sínum frá EFTA-ríkjunum til fundar um 5. rammaáætlun ESB um rannsóknir og vísindi og önnur sameiginleg málefni. Hefur verið nokkur áhersla lögð á það af hálfu EFTA-ríkjanna að geta átt slíka pólitíska fundi með ráðherra þess ríkis, sem fer með formennsku í ráði ESB hverju sinni. Síðdegis tók ég flugvél frá Vínarborg, henni seinkaði dálítið en þrátt fyrir stuttan tíma á milli flugvéla á Kaupmannahafnarflugvelli náði ég vélinni heim um kvöldið. Reynslan er farin að kenna farþegum með Flugleiðum að best er að hraða sér sem mest þeir mega til véla sinna, því að eigi stjórnendur þeirra þess kost loka þeir dyrum vélanna á auglýstum áætlunartíma og opna þær ekki svo glatt aftur, þótt vitað sé um síðbúna farþega í fingri flugstöðvarinnar við lokaða vélina.