Mánudagur 16.11.1998
Þennan dag var haldið upp á dag íslenskrar tungu í þriðja sinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Fyrir hádegi fór ég í Austurbæjarskólann, minn gamla barnaskóla, þar sem nemendur og kennarar höfðu skipulagt skemmtilega dagskrá, sem Vilborg Dagbjartsdóttir, kennari og skáld, kynnti en hún var hin fyrsta til að hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 1996. Síðdegis bauð síðan menntamálaráðuneytið til hátíðar í Hafnarborg, menningarmiðstöð Hafnfirðinga. Þar flutti ég ræðu, Þórarinn Eldjárn rithöfundur hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Félag íslenskra leikskólakennara og Blaðamannafélag Íslands hlutu viðurkenningu fyrir gott framlag til íslenskrar tungu. Verðlaunahafi og handhafar viðurkenningarinnar fluttu ræður, skólanemar, sigurvegarar í upplestrarkeppni grunnskólanema, lásu ljóð, Signý Sæmundsdóttir söng en Anna Guðný Guðmundsdóttir lék með henni á píanó. Þorgeir Ólafsson, formaður framkvæmdastjórnar dagsins, stjórnaði athöfninni. Virðist mér að þessi dagur hafi fest rætur og eigi eftir að dafna þegar fram líða stundir.