2.9.1996 0:00

Mánudagur 2.9.1996

Um hádegisbilið mánudaginn 2. september hélt ég til Kaupmannahafnar og sneri heim aftur með kvöldvélinni þriðjudaginn 3. september. Tilefnið var norrænn ráðherrafundur um 5. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og vísindi. Er unnið að þeirri stefnumótun um þessar mundir og hafa Norðurlöndin leitast við að samræma sjónarmið sín. Höfum við ráðherrarnir sent bréf til Edith Cresson, sem fer með þessi mál í framkvæmdastjórn ESB. Voru þau meðal annars til umræðu á fundinum í Kaupmannahöfn. Í tengslum við fundinn var ritað undir samkomulag milli ríkisstjórna Norðurlandanna um aðgang að háskólamenntun. Þar er gert ráð fyrir greiðsluskyldu ríkjanna, annarra en Íslands, en samkvæmt samkomulaginu, sem gildir í 3 ár skal greiða 22.000 DKR fyrir 75% námsmanna, sem eru í háskóla einhvers staðar á Norðurlöndunum.