8.12.2023 9:39

Vantraust Kristrúnar á Degi B.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, treystir því ekki að Dagur B. fari með rétt mál, það er að borgaryfirvöld hafi tök á húsnæðismarkaðnum með skipulagsvaldi sínu.

Vandræði Samfylkingarinnar vegna þeirrar þróunar í Reykjavík að húsnæði sem reist er fyrir almennar íbúðir samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs er breytt í íbúðir fyrir ferðamenn eru komin til flokksformannsins.

Nýting húsnæðis í Bríetartúni 9-11 hefur verið í fréttum vegna undrunar Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, yfir kúvendingu á ákvörðun sem hann stóð að sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar árið 2018 um að hafna gistileyfum fyrir 38 íbúðir í húsinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri upplýsti á mbl.is miðvikudaginn 29. nóvember að veiting gistileyfisins þrátt fyrir höfnun Hjálmars hefði verið hluti „af lærdómsferli borgarinnar“.

Höfnun ráðsins undir formennsku Hjálmars var kærð og borgin tapaði kærumálinu. Á mbl.is sagði Dagur B. að borgin hefði fallið á „tækniatriði“. Í seinni tíma deiliskipulagsáætlun hefðu borgaryfirvöld hins vegar lagt sig fram um „að taka það bara ofboðslega skýrt fram þar sem við viljum ekki að það sé leiga til ferðamanna og skammtímaleiga“. Borgin hefði þess vegna unnið mál gegn verktökum vegna nýtingar húsa við Hafnartorg.

BbrBríetartún 9-11 í smíðum (mynd: vefsíða Stakfells).

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, treystir því ekki að Dagur B. fari með rétt mál, það er að borgaryfirvöld hafi tök á húsnæðismarkaðnum með skipulagsvaldi sínu.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á alþingi fimmtudaginn 7. janúar gerði Kristrún atlögu að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir að hafa sem ferðamálaráðherra árið 2018 sett reglugerðina sem varð ákvörðun Hjálmars að falli. Breytingin hvatti borgarstjórn hins vegar til aukinnar varúðar að sögn Dags B. og leiddi síðan til vandaðri ákvarðana í umhverfis- og skipulagsráði.

Kristrún leit fram hjá þessu „lærdómsferli borgarinnar“ og lagði sig alla fram um að skella skuldinni á Þórdísi Kolbrúnu. „Það er ein tiltekin reglugerð sem virðist hafa haft sérstaklega skaðleg áhrif,“ sagði Kristrún. Reglugerðin var eins og reglugerðir almennt sett til að taka á ástandi sem ríkti á þessu sviði á þeim tíma sem hún tók gildi. Dugði hún við þáverandi ástand sem breyttist síðan mikið með lokun landsins á COVID-19-tímanum.

Að sögn borgarstjóra Samfylkingarinnar náði síðan Reykjavíkurborg tökum á áhrifum reglugerðarinnar á húsnæðismarkaðinn með skipulagsvaldinu.

Nú stendur Kristrún Frostadóttir í ræðustól á þingi og spyr: „Hvað gekk hæstv. ráðherra til?“ með setningu reglugerðarinnar 2018.

Þórdís Kolbrún svaraði og sagði að með reglugerðinni hefði verið smíðaður rammi með hámarksdagafjölda til að ákvarða skyldu til að greiða virðisaukaskatt. Nú væru tæp sex ár liðin frá setningu þessarar reglugerðar og tímabært að meta efni hennar miðað við stöðuna í dag. Jafnframt skoraði hún á Kristrúnu „að tala við sína félaga hjá Reykjavíkurborg og spyrja hvað þau eru að gera til að ná betri tökum á umsvifum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu“.

Hvort skyldi Kristrún tala við Hjálmar Sveinsson eða Dag B. Eggertsson? Vill Hjálmar að reglugerð sé breytt af því að hann treystir ekki Degi B.?