7.12.2024 11:29

Notre-Dame opnuð að nýju

Myndir sem birtar hafa verið innan úr Notre-Dame bera vott um mikinn glæsileika hennar og hljómburaðarmeistarar segja að tónlist muni njóta sín í kirkjunni sem aldrei fyrr.

Endurgerð Notre-Dame í París verður formlega opnuð síðdegis í dag, laugardaginn 7. desember. Þegar bruninn mikli varð í kirkjunni 15. apríl 2019 hét Emmanuel Macron Frakklandsforseti því að hún yrði endurreist á fimm árum. Það hefur gengið eftir og myndir sem birtar hafa verið innan úr kirkjunni bera vott um mikinn glæsileika hennar og hljómburaðarmeistarar segja að tónlist muni njóta sín í kirkjunni sem aldrei fyrr.

Screenshot-2024-12-07-at-11.25.44

Talið er að endurreisn dómkirkjunnar hafi kostað um 850 milljónir evra. Gjafir til verksins námu um einum milljarði evra. Tæplega 340.000 gefendur frá 150 löndum létu fé af hendi rakna til kirkjuviðgerðarinnar og gáfu frá 1 evru til 200 milljón evra hver um sig.

Ætlunin var að hluti athafnarinnar síðdegis í dag yrði í tjaldi á torginu fyrir framan kirkjuna. Að kvöldi föstudagsins 6. desember sendi franska veðurstofan hins vegar frá sér veðurviðvörun og við svo búið tilkynntu skrifstofur Frakklandsforseta og biskupsins í París að athöfnin yrði inni í kirkjunni. Minnast menn þess að úrhellisrigning setti dapurlegan svip á setningu Ólympíuleikanna í París á liðnu sumri.

Í kirkjunni verða nú um 1.500 gestir, þar af um 40 erlendir fyrirmenn, þar á meðal belgísku konungshjónin, Spánarkonungur, Vilhjálmur Bretaprins, Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti og forsetar fleiri Evrópulanda, Jill Biden forsetafrú í Bandaríkjunum og Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti.

Fyrir brunann heimsóttu um 12 milljónir manna Notre-Dame í París ár hvert. Í hugum margra er kirkjan ekki minna tákn Frakklands og frönsku höfuðborgarinnar en Eiffel-turninn. Líklegt er að athyglin sem kirkjan fær vegna athafnarinnar í dag og alls þess sem gerst hefur vegna brunans dragi að henni enn fleiri gesti og er nú spáð 14 milljón gestum árlega.

Vangaveltur hafa verið um hvort hefja eigi innheimtu aðgangseyris að kirkjunni. Í dag voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar sem sýna að 62% Frakka vilja að það verði ókeypis aðgangur fyrir alla að Notre-Dame, jafnt ferðamenn og þá sem koma þangað til að rækta trú sína.

Þeir sem mæla með upptöku aðgangseyris benda til dæmis á að ferðamenn greiði 29 pund, 5.100 ISK, börn 13 pund, fyrir að heimsækja Westminster Abbey í London.

Emmanuel Macron flytur ræðu í upphafi athafnarinnar í dag og síðan hefst kirkjuleg athöfn sem Laurent Ulirich erkibiskup í París leiðir. Að loknu ávarpi hans verður orgelið blessað og tónlistin fyllir kirkjuna að nýju.

Hundruð erlendra sjónvarpsstöðva hafa keypt rétt til að senda út efni frá athöfninni í kirkjunni í dag og messu þar á morgun. Þá verða tónleikar í kirkjunni í kvöld þar sem frægir tónlistarmenn koma fram. Um næstu helgi verður Magnificat eftir J.S. Bach flutt laugardag og sunnudag.

Þeir sem hafa aðgang að France 2 sjónvarpsstöðinni geta í allan dag fylgst með efni um og frá Notre-Dame. Þar segir að útsending frá athöfninni hefjist 17.30 að íslenskum tíma.