Norskur einhugur um EES
Utanríkisráðherrann segist undrandi á hve nefndin sé einhuga um álit sitt á ágæti EES-samstarfsins og telur hann að það muni móta umræður í Noregi um samstarfið við ESB.
Ríkisstjórn Noregs skipaði á árinu 2022 nefnd til að semja skýrslu um reynslu Norðmanna af EES-samstarfinu og öðrum samningum Noregs við ESB undanfarinn áratug.
Kynning á um 300 bls. skýrslu nefndarinnar er hafin og föstudaginn 12. apríl birtist viðtal um efni hennar við Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, á vefsíðunni Altinget.no þar sem hann segist undrandi á hve nefndin sé einhuga um álit sitt á ágæti EES-samstarfsins og telur hann að það muni móta umræður í Noregi um samstarfið við ESB.
Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs.
Ráðherrann segir að nefndin hafi unnið fyrirmyndarstarf við gerð skýrslu sinnar og hann telji enga ástæðu til að vinna það sem á norsku er kallað stortingsmelding um málið, skýrslan sé svo skýr að sérstök allt að tveggja ára úrvinnsla fyrir norska stórþingið yrði aðeins umritun á því sem nefndin segir. Nú skipti mestu að framkvæma tillögur EES-nefndarinnar.
Espen Barth Eide staldrar sérstaklega við tvennt: (1) Hve samstiga nefndin sé í afstöðu sinni til þess hvaða gildi EES hefur fyrir Noreg og hve EES-samningurinn sé miklu betri en aðrir kostir, það er Brexit-lausnir eða tvíhliða samningar Sviss við ESB. (2) Hve vel EES-samningurinn nýtist og virki. Hann rifjar upp að fyrir 22 árum hafi hann og Jonas Gahr Støre, núv. forsætisráðherra, skrifað grein í Aftenposten og lýst þeirri skoðun að EES-samningurinn myndi renna sitt skeið vegna þess að ESB-samstarfið yrði sífellt víðtækara. Hann segir að þeir hafi skilgreint þróunina innan ESB rétt en ekki séð fyrir að EES-samningurinn hefði rými fyrir allt sem við bættist. Vilji ríki standa sem næst ESB en ekki gerast aðili að sambandinu virki EES vel.
EES-nefndin hvetur til þess að ríkisstjórnin auki þekkingu á ESB og EES hvarvetna í samfélaginu, samhæfi starf ráðuneyta og stofnana, vinni gegn töfum á innleiðingu EES-reglna og sýni forvirkni þegar unnið er að gerð nýrra reglna og samninga við ESB.
Þeir sem hafa kynnt sér tillögur EES-nefndar sem skilaði um 300 bls. skýrslu hér árið 2019 sjá að mikill samhljómur er með niðurstöðu þess sem þar sagði og orða norska utanríkisráðherrans þegar hann lýsir norsku skýrslunni en hún verður formlega birt í næstu viku.
Norski utanríkisráðherrann er hlynntur aðild Noregs að ESB en áttar sig á að hún er ekki á dagskrá þar. Þegar hann í lok samtalsins er spurður hvaða augum hann líti framtíð EES, svarar hann.
„Á meðan við verðum ekki í ESB verður EES-samningurinn við lýði. Það krefst þess á hinn bóginn að við séum ávallt forvirkir. Ég les það einnig út úr skýrslunni að EES-samningurinn er bestur ef ríki nýta sér hann. Það verður að nota hann á virkan hátt. Það dugar ekki að taka bara á móti. Maður verður að vera virkur þátttakandi. Við verðum að verða enn virkari á komandi árum. Boðskapur um það verður sífellt mikilvægari.“
Undir þetta skal tekið og enn einu sinni minnt á að íslensk stjórnvöld verða að tryggja rétt Íslendinga samkvæmt EES-samningum betur með nýrri lagareglu um túlkun á bókun 35 við samninginn.