Norskir skattaflóttamenn
Í greininni segir að á undanförnum tveimur árum hafi 100 af 400 hæstu skattgreiðendum Noregs, sem standi fyrir um 50% af eignaverðmætum hópsins, flúið Noreg til að bjarga fyrirtækjum sínum.
Á bandarísku vefsíðunni The Free Press birtist þriðjudaginn 10. desember grein eftir Norðmanninn Fredrik Haga sem stofnaði með öðrum fyrirtækið Dune.com til að auka gagnsæi við notkun rafmynta. Var fyrirtækið í Osló og unnu þeir félagar launalaust við það í átta mánuði þar til sprotahraðall kom til sögunnar með 250.000 dollara fjárfestingu og dugði það fé þangað til félögunum tókst að landa 80 milljón dollurum frá áhættufjárfestum á einu ári 2020-2021.
Haga greiddi um 40% af tekjum sínum í skatt þar til hann stóð frammi fyrir því sem hann kallar Norway’s infamous „unrealized gains tax“, alræmda norska skattinn á óinnleystan hagnað sem vinstristjórnin í Noregi sem kom til valda 2021 hafði þá um það bil tvöfaldað.
Haga segir að vegna þessarar aðferðar við skattheimtu hafi hann staðið frammi fyrir að þurfa að greiða miklu hærri skatt en nam tekjum hans. Eina leið hans til að standa í skilum vegna skattsins hafi verið að selja hlutabréf í fyrirtækinu og þannig minnka hlut sinn í eigin fyrirtæki. Hann segist hafa valið sama kost og margir norskir frumkvöðlar og flutt til Sviss.
Í greininni segir að á undanförnum tveimur árum hafi 100 af 400 hæstu skattgreiðendum Noregs, sem standi fyrir um 50% af eignaverðmætum hópsins, flúið Noreg til að bjarga fyrirtækjum sínum.
Þegar bent sé á að menn geti ekki greitt skatta með peningum sem þeir eigi ekki yppti vinstrisinnarnir bara öxlum og segi að þeir sem séu með breiðustu bökin verði að bera þyngstu byrðarnar.
Fredrik Haga (mynd af X).
Eftir að gagnrýni á auðlegðarskattinn varð háværari jókst aðeins skattagleði ríkisstjórnarinnar. Hún hækkaði ekki aðeins skattinn fyrr á þessu ári heldur herti jafnframt tökin á eigendum fyrirtækja með því að leggja „útgönguskatt“ á óinnleystan hagnað. Flytji maður frá Noregi verður hann tafarlaust krafinn um skatt sem nemur 38% af markaðsvirði eigna hans. Skipti þá engu hvort viðkomandi eigi eitthvað laust fé. Haga fagnar því að hafa flutt úr landi fyrir þessa skattabreytingu. Hann segir að í stað þess að láta loka sig inni á þennan hátt ákveði frumkvöðlar að yfirgefa Noreg áður en þeir stofni fyrirtæki.
Haga segir að í Austurríki, Danmörku, Þýskalandi, Hollandi og Frakklandi hafi skattur á óinnleystan hagnað verið aflagður á undanförnum áratugum. Svíar hafi afnumið auðlegðarskatt sinn árið 2007. Síðan hafi tækni- og hugverkageirinn blómstrað þar. Spotify í Svíþjóð hafi nýlega farið fram úr norska ríkisolíufélaginu Equinor að markaðsvirði.
Á undanförnum 15 árum hafi þróunin í norsku viðskiptalífi orðið á þann veg að í stað þess að þar starfi sjö af 30 verðmætustu fyrirtækjum á Norðurlöndum séu þau nú aðeins tvö, Equinor og bankinn DNB. Hvorugt þeirra sé nýsköpunar- eða hugverkafyrirtæki.
Haga segir að vegna brottflutningsins frá Noregi hafi mynd af sér verið hengd upp á smánarvegg í skrifstofu Sósíalíska vinstriflokksins.
Er eitthvað svipað í bígerð hjá skattheimtuflokkunum sem sitja nú yfir stjórnarmyndun hér? Þeir sem þar véla ættu að minnast þess að hingað flýðu menn í öndverðu frá Noregi vegna hárra skatta,