26.5.2023 10:37

Norskir auðmenn flýja til Sviss

Norska ríkisstjórnin bregst illa við allri gagnrýni á auðlegðarskattinn og ætlar að bregða fæti fyrir þá sem ætla að flytja úr landi vegna hans með því að leggja á útgönguskatt.

Marius Arion Nilsen, þingmaður norska Framfaraflokksins, kynnti þá hugmynd á dögunum að innan norska stórþingsins yrði stofnað vinafélag Sviss með þátttöku allra flokka. Hugmyndin kviknaði vegna þess hve Sviss laðar til sín marga norska auðmenn.

Á stórþinginu starfa mörg slík vinafélög erlendra þjóða. Áhugi þingmannsins á Sviss skýrist af fjölda norskra auðmanna í Sviss eftir að ríkisstjórnin undir forystu Verkamannaflokksins hækkaði auðlegðarskattinn um 0,1% árið 2022. Milljarðamæringurinn Kjell Inge Røkke ákvað þá að flytja frá Noregi til Sviss.

Í Noregi þurfa einstaklingar sem eiga meiri eignir en sem nemur 1,7 m. n. kr. (22,5 m. ísl. kr.) að greiða 1% auðlegðarskatt á það sem er umfram þessa tölu. Af skattinum renna 0,3% í ríkissjóð en 0,7% til sveitarfélaga. Þeir sem eiga eignir umfram 20 m. n. kr. (265 m. ísl. kr.) þurfa að greiða 1,1% skatt. Viðbótar 0,1% sem gerði milljónamæringana svona reiða rennur í ríkissjóð.

Ingolfur_arnarson_250408Skattar Haralds hárfagra hröktu Ingólf Arnarson til Íslands, nú flýja norskir auðmenn til Sviss.

Auðlegðarskattur var innleiddur í tólf Evrópulöndum um 1990 en síðan almennt aflagður þar sem hann leiddi til brottflutnings fólks. Frá Frakklandi fluttu til dæmis 60.000 milljónamæringar á árunum 2000 til 2016, skatturinn var að mestu afnuminn þar árið 2017. Nú er almennur auðlegðarskattur aðeins í þremur Evrópulöndum: Noregi, Spáni og Sviss.

„Hreina vinstri stjórnin“ sem hér sat 2009 til 2013 lögfesti auðlegðarskatt til þriggja ára, þ. e. 2011, 2012 og 2013. Hann lagðist á allar eignir einstaklings umfram 75.000.000 krónur og var 1,5%. Væru eignir hins vegar hærri en 150.000.000 krónur var skatturinn 2%. Hjá hjónum lagðist skatturinn á samanlagðar eignir þeirra umfram 100.000.000 krónur og var 1,5%. Væru eignir hins vegar hærri en 200.000.000 voru greidd 2% í auðlegðarskatt. Skatturinn var látinn renna sitt þriggja ára skeið.

Síðan hefur til dæmis Alþýðusamband Íslands hreyft því að auðlegðarskattur verði tekinn upp að nýju. Sé rýnt í það sem Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir um nauðsyn útgjaldaaukningar ríkisins til heilbrigðismála og fleiri þátta og þörf sé á auknum skatttekjum til að standa undir slíkum útgjöldum samhliða tilfærslum gegn ójöfnuði glittir í hugmyndir um auðlegðarskatt.

Norska ríkisstjórnin bregst illa við allri gagnrýni á auðlegðarskattinn og ætlar að bregða fæti fyrir þá sem ætla að flytja úr landi vegna hans með því að leggja á útgönguskatt.

Boðað var til stofnfundar vinafélags norskra þingmanna með Sviss í gær (25. maí). Þegar þetta er skrifað hafa ekki borist fréttir af fundinum. Fulltrúar flokksins Rødt, Rauður, boðuðu að ekki yrði unnt að fallast á að tilgangur vinafélagsins yrði að kynna sér hvernig búa mætti í haginn fyrir milljónamæringa og lokka þá aftur til Noregs frá Sviss. Það ætti frekar að hafa þann tilgang að vinna með hófsömum öflum í Sviss að því að fækka svissneskum skattaglufum til að halda útlendum auðmönnum frá landinu. Nú taka margar svissneskar kantónur þeim opnum örmum og semja um skatta þeirra.