5.11.2020 11:31

Norska lögreglan vopnast

Íslensk yfirvöld geta ekki leyft sér þann munað að láta eins og atburðir á borð við þá sem hér er lýst geti ekki gerst á Íslandi.

Frá og með deginum í dag og í næstu þrjár vikur ganga lögreglumenn um allan Noreg vopnaðir til starfa sinna. Ríkislögreglustjórinn Benedicte Bjørnland tók ákvörðun um þetta eftir ábendingu frá Politiets sikkerhetstjeneste (PST), norsku öryggislögreglunni sem greinir og leggur mat á hættu.

PST segir að til þess kunni að koma eða sé sannsynlig að einhver einstaklingur sem aðhyllist öfgafullan íslamisma ráðist á almenna borgara eða þá sem hann telur gegna „táknrænu“ hlutverki eins og lögreglu eða hermenn. Við árásina kunni að verða beitt högg- eða stunguvopni eða ökutæki.

Norska ríkisútvarpið, NRK, segir að lögreglan bendi ekki á neina beina ógn gegn Norðmönnum en segi að það sem gerst hafi nýlega í Evrópu „sé áminning um að lögreglan verði ávallt að taka mið af því að til óæskilegra atvika komi“.

0Deov3L2mcB6yUNzTVOi1Q4VDy_2WtyvIazwteEWKbNgPST segir að spenna aukist nú milli þeirra sem nýta sér málfrelsi í Evrópu og margra múslima í álfunni sem telja að þar með sé vegið að íslam bæði í Noregi og Evrópu. Þessi spenna birtist til dæmis á samfélagsmiðlum í Noregi vegna færslna þar gegn íslam. Oft sé erfitt sé að greina á milli þess sem er rétt eða rangt. Múslimar telji sér engu að síður ögrað og kynni Noreg sem ríki þar sem þrengt sé að íslam.

Hryðjuverkasamtökin al-Kaida og Ríki íslams hafa undanfarið hvatt múslima hvarvetna til að hefna atlögu gegn trúnni. Þá segir PST að öfgafullir einstaklingar utan Noregs hafi hvatt norska múslima til að hefna sé ráðist á íslam. Þá telur PST að hryðjuverkin í Frakklandi kunni að ýta undir hryðjuverkamenn í öðrum löndum.

Í gær viðurkenndi Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, að yfirvöld þar hefðu gert mistök með því að taka ekki nægilega alvarlega upplýsingar sem leyniþjónusta landsins fékk í júlí frá leyniþjónustu nágrannaríkisins Slóvakíu um Kutjim Fejzul (20 ára) sem lét að sér kveða í níu mínútur með hríðskotabyssu, skammbyssu og sveðju að kvöldi mánudags 2. nóvember í miðborg Vínar, fjórir féllu í valinn og 23 særðust.

Kutjim Fejzul var einn á vettvangi en Ríki íslams fagnar ódæði hans sem sínu. Undanfarið hafa hroðaleg hryðjuverk verið framin í París, Nice og Lyon í Frakklandi.

Í þessum tilvikum hafa „einmana úlfar“ verið á ferð en ódæðin leiða til víðtækra lögregluaðgerða gegn hryðjuverkasamtökum og samverkamönnum.

Íslensk yfirvöld geta ekki leyft sér þann munað að láta eins og atburðir á borð við þá sem hér er lýst geti ekki gerst á Íslandi.

Þeir verða fyrstir til að vega að yfirvöldunum fari eitthvað úrskeiðis sem leggjast mest gegn því að gripið sé til aðgerða á borð við þær sem nú er gert í Noregi. Raunar er ólíklegt að það verði gert því að markvisst og því miður með árangri er unnið gegn því að hér á landi sé aflað upplýsinga á borð við þær sem PST aflar. Að meta öryggi sitt á grunni eigin þekkingarleysis lofar ekki góðu.