29.4.2019 10:22

Norsk íhlutun í íslensk stjórnmál

Vandi andstæðinga O3 á Íslandi er að þeir tóku frá upphafi norskan pól í hæðina og fjölluðu um málið að forskrift andstæðinganna í Noregi.

Vakið var máls á því á þessum vettvangi í gær að O3 hefði ekki tekið að velta hér fyrr en um svipað leyti og hann var afgreiddur í norska stórþinginu 22. mars 2018. Þá var einnig bent á að málsvarar þeirra sem urðu undir í Noregi áttu stuðningsmenn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. til 18. mars 2018. Þeir beittu sér harkalega í atvinnuveganefnd landsfundarins eins og Kristinn Hugsason, einn nefndarmanna, staðfesti.

845105Frá landsfundi sjálfstæðismanna 16. til 18. mars 2018. Inn í atvinnuveganefnd hans komu talsmenn minnihlutamanna í Noregi sem urðu undir vegna O3 í norska stórþinginu og vilja nota Íslendinga til að stöðva framgang O3 á vettvangi EES.

Að þetta gerist á vettvangi Sjálfstæðisflokksins er með nokkrum ólíkindum. Flokkurinn hefur löngum stigið varlega til jarðar í alþjóðlegum flokkasamskiptum. Raunar voru það ekki flokksmenn úr samstarfsflokki sjálfstæðismanna í Noregi, Hægriflokknum, sem beittu sér gagnvart landsfundarfulltrúum sjálfstæðismanna heldur menn úr norska Miðflokknum og samtökum gegn aðild Norðmanna að ESB, þau færast nú mjög til andstöðu við EES-aðildina.

Vandi andstæðinga O3 á Íslandi er að þeir tóku frá upphafi norskan pól í hæðina og fjölluðu um málið að forskrift andstæðinganna í Noregi, í landi sem er tengt við sameiginlegt raforkukerfi ESB. Rök norskra O3-andstæðinga eiga alls ekki við hér á landi.

Þegar vakið var máls á þessari staðreynd var ranglega fullyrt með norskum stuðningi að ekki væri á valdi Íslendinga að ákveða hvort þeir tengdust öðrum þjóðum með sæstreng eða ekki. Honum yrði troðið í samband við íslenska raforkukerfið hvort sem mönnum líkaði betur eða verr!

Að sjálfsögðu er óþægilegt fyrir þá sem slá um sig sem miklir föðurlandsvinir að bent sé á að þeir gangi erinda minnihlutahóps í Noregi sem vill nota Íslendinga til að tefja enn frekar eða eyðileggja framgang O3. Til að dreifa athyglinni frá þessu stilla O3-andstæðingar nú málinu upp á þann veg að um þáttaskil sé að ræða milli þess sem áður var gert og þess sem gerist núna. Þeir sem eldri eru eigi að hafa vit fyrir þeim yngri.

Þá er tekið til við að ræða hvor hópurinn sé orðljótari í garð hins. Þegar umræðum er ýtt á það stig er augljóst að málefninu hefur verið vikið til hliðar. Það er með öllu ástæðulaust. Til dæmis er óhjákvæmilegt að líta til þess sem gerðist í EES-væðingu íslenskra orkumála í tíð þeirra sem nú ætla að segja þeim sem yngri eru fyrir verkum.

Að því verður vikið í næsta kafla þessarar einkennilegu sögu.