13.8.2023 11:57

Njálurefillinn – saumað í 1000 ár

Fyrsta sporið í reflinum var tekið 2. febrúar 2013 og komu rúmlega 12.000 manns að saumaskapnum sem lauk 15. september 2020.

Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, var fyrr í sumar með hóp rannsakenda við fornleifagröft að Kirkjubæjarklaustri þar sem var nunnuklaustur um aldir fram að siðaskiptum. Í samtölum við fjölmiðla sagði Steinunn að nunnurnar hefðu verið þekktar fyrir einstakt handverk við gerð veggteppa, tjalda, refla og annarra klæða. Textílverkin væru afar merkileg. Mörg þeirra bæru ísaumaðar frásagnir á myndmáli og því sögulegan fróðleik. Steinunn sagði að áhersla á varðveislu þessara gripa á Íslandi mætti vera meiri.

Steinunn er ekki ein um að draga fram mikilvægi altarisklæða og annarra textílverka sem unnin voru í klaustrunum á Íslandi samhliða handritagerð en um þessar mundir er hópur hennar við framhaldsrannsóknir að Þingeyrum í Húnaþingi. Þær hófust á Þingeyraverkefninu svonefnda sem sagt hefur verið frá hér á vefsíðunni en það þróaðist síðan yfir í fimm ára rannsóknarverkefni sem nýtur styrks úr ríkissjóði undir heitinu Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM). Í krafti þess hafa verið stundaðar fornleifarannsóknir víðar, til dæmis á Odda á Rangárvöllum þar sem Oddafélagið er með áform um að reisa Sæmundarstofu að fyrirmynd Snorrastofu í Reykholti en umsýsla vegna RÍM er einmitt í höndum hennar.

367400407_6792819157451566_2293306282829048527_nKristtín Ragna Gunnarsdóttir flytur fyrirlestur sinn að Kvoslæk 12. ágúst 2023 (mynd: Ísólfur Gylfi Pálmason).

Hér að Kvoslæk í Fljótshlíð hafa verið fluttir tveir afar fróðlegir fyrirlestrar um refla í sumar. Reynir Tómas Geirsson læknir sagði frá Bayeuxreflinum á Normandí í Frakklandi en hann segir sögu orrustunnar við Hastings 1066 þegar Normannar sigruðu Engilsaxa. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og rithöfundur, sagði frá sköpunarferli Njálurefilsins sem hún hannaði að frumkvæði kvenna á Hvolsvelli en þar voru Christina M. Bengtsson og Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir í forystu.

Fyrsta sporið í reflinum var tekið 2. febrúar 2013 og komu rúmlega 12.000 manns að saumaskapnum sem lauk 15. september 2020. Refillinn er 91,6 metri á lengd og 50 sm breiður, lengsti refill í heimi. Bíður hann þess nú að fá hæfilegt húsa- og sýningarskjól. Sögu saumaskaparins má kynnast hér.  

GunnhoghelgaGunnhildur Edda Kristjánsdóttir (t.v,) og Helga Sigurðardóttir með fullgerðan Njálurefilinn að verki loknu í september 2020. Nú bíður refillinn þess að verða til sýnis (mynd: njalurefillinn.is).

Jóhanna E. Pálmadóttir frá Akri í Húnaþingi, næsta bæ við Þingeyrar, er ein þeirra sem hafa haft forystu um Textílsafnið á Blönduósi og nú Textílmiðstöðina sem stuðlar að því að endurvekja áhuga á þessari fornu menningararfleifð og færa hana til samtímans. Þangað fóru forystukonurnar á Hvolsvelli í smiðju áður en af stað var farið. Þá fór hópur fólks úr Rangárþingi einnig í ferð til Bayeux. Kristín Ragna hefur hannað refil reistan á Vatnsdælasögu og er hann saumaður fyrir norðan.

Sigrun_hannesdottir_nunnuklausturMarteinsklæðið í Louvre-safninu í París.

Allt fellur þetta á einn eða annan hátt í sama farveg. Reynir Tómas og Kristín Ragna brugðu í fyrirlestrum sínum bæði upp myndum af íslenska altarisklæðinu, sem sýnir atvik úr ævi heilags Marteins og er nú geymt á Louvre-safninu í París en var áður í kirkjunni að Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er talið hafa verið búið til einhvern tíma á árabilinu 1300-1600, hugsanlega í Reynistaðarklaustri í Skagafirði en ekki er hægt að staðfesta það.

Minnumst þess að án ullarinnar og sauðkindarinnar hefðu Íslendingar ekki lifað af í landi sínu.