18.7.2021 10:45

Nína, myndhöggvari í Fljótshlíð

Hlaðan að Kvolæk rúmaði ekki fleiri áheyrendur en hlýddu á Hrafnhildi Schram listfræðing flytja erindi um Nínu þar sem hún stiklaði á stóru um æfi hennar.

Laugardaginn 17. júlí efndum til fyrirlesturs um Nínu Sæmundsson myndhöggvara frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð í Höðunni hjá okkur að Kvoslæk.

Fjölmenni kom í blíðskaparveðri, bjart var framan af degi en um klukkan 15.00 þegar viðburðurinn hófst var komin svo mikil móða að ekki sást í Eyjafjallajökul. Sama móða er í dag, sunnudag, og liggur hún yfir öllu en í gærkvöldi var niðaþoka undir lágnættið.

Hlaðan rúmaði ekki fleiri áheyrendur en hlýddu á Hrafnhildi Schram listfræðing flytja erindi um Nínu þar sem hún stiklaði á stóru um æfi hennar. Hrafnhildur skrifaði bókina Nína S. – fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn sem Crymogea gaf út árið 2015.

IMG_6178Hrafnhildur Schran flytur erindi um Nínu Sæmundsson í Hlöðunni að Kvoslæk (mynd: Vilhjálmur Bjarnason).

Jónína Sæmundsdóttir, eða Nína Sæmundsson eins og hún kallaði sig, var yngst 15 systkina frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð, skammt austan við kirkjuna að Hlíðarenda. Þar var Nínulundur opnaður árið 2000 og reist styttan Ung móðir. Ríkey Ríkarðsdótttir, frænka Nínu, beitti sér mjög fyrir gerð lundarins og gaf árið 2000 út glæsilegan kynningarbækling um Nínu, ríkulega myndskreyttan með texta eftir Aðalstein Ingólfsson listfræðing.

Skammt fyrir innan Nínulund er Þorsteinslundur til minningar um Þorstein Erlingsson skáld en Nína gerði brjóstmynd af Þorsteini sem prýðir lundinn.

Nú stendur til að þriðja verk Nínu, Afrekshugur, rísi á Hvolsvelli um 2,60 m há stytta sem Nína gerði árið 1931 og vann með henni samkeppni um táknmynd fyrir Waldorf Astoria hótelið í New York. Alls tóku 400 listamenn þátt í samkeppninni. Ung stúlka stendur á hnetti og teygir upp armana sem blæjur eða vængir tengjast, er verkið fyrir ofan anddyri hótelsins.

Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli, er hvatamaður þess að afsteypa af þessu fræga verki rísi á Hvolsvelli. Í gær gerði hann grein fyrir stöðu málsins að loknu erindi Hrafnhildar Schram. Stóð á endum að Friðrik kæmist til okkar þar sem hann var um hádegisbilið leiðsögumaður í Ragnheiðargöngu í Skálholti.

Styttan Afrekshugur var tekin niður tímabundið af eigendum hótelsins sem vinna að endurbótum á því. Gerð var þrívíddar-mynd af styttunni og fékk Friðrik heimild til að nýta hana til afsteypu sem verður úr bronsi og gerð i Danmörku fyrir milli sjö og átta milljónir króna. Nú eru um 5,5 milljónir á hendi og má því segja að herslumun vanti til að endar nái saman. Félag áhugamanna, Afrekshugur, vinnur að framgangi málsins og er unnt að styrkja það með því að senda tölvubréf á netfangið afrekshugur@gmail.com.

Þá sagði Friðrik einnig frá því að menningarnefnd Rangárþings eystra hefði kynnt áform um endurbætur á Nínulundi og væri miðað við að þeim lyki árið 2022, sama ár og Afrekshugur risi á Hvolsvelli. Þá verða 130 ár liðin frá fæðingu Nínu (f. 1892 - d. 1965).

Miðað við áhugann á að halda minningu Nínu Sæmundsson á loft sem birtist í Hlöðunni að Kvoslæk í gær er full ástæða til bjartsýni um að áformin rætist um að hennar verði minnst á verðugan hátt hér um slóðir árið 2022. Það gerist þó ekki án þess að margir leggi hönd á plóginn.