Niinistö um uppátæki Pútins
„Ég leit snöggt í kringum mig á þá sem sátu við borðið og... komst að þeirri niðurstöðu að áminningin væri sérstaklega ætluð mér. Já, Finnland var þá stórhertogadæmi Rússlands.“
Sauli Niinistö, fyrrverandi forseti Finnlands, sendi nýlega frá sér bók um árin 12 sem hann sat á forsetastóli. Sagt var frá henni á vefsíðu finnska ríkisútvarpsins Yle á dögunum og er stuðst við þá frásögn hér.
Lágmarka óöryggi og hámarka öryggi, þannig lýsir Niinistö kjarna utanríkis- og öryggisstefnu Finnlands á forsetaárum sínum, 2012-2024, í bókinni Kaikki tiet turvaan sem á íslensku mætti þýða: Allar leiðir til öryggis.
Valdatíð Niinistös féll saman við umrótatíma í öryggismálum heimsins sem einkenndist umfram allt af innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Samskipti hans við Vladimír Pútín eru rauður þráður í bókinni.
Sauli Niinistö og Vladimir Pútin.
Niinistö rifjar upp að Pútín hafi reglulega haft sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt Finna í flimtingum.
Til dæmis bauð Rússlandsforseti gestum sínum að smakka á gömlu Madeira-víni frá árinu 1845 á efnahagsráðstefnunni í Sankti Pétursborg árið 2012 – og velti fyrir sér í ræðu hve allt hefði verið gott á þeim tíma.
Niinistö segist hafa skilið hvað að baki bjó og skrifar:
„Ég leit snöggt í kringum mig á þá sem sátu við borðið og... komst að þeirri niðurstöðu að áminningin væri sérstaklega ætluð mér. Já, Finnland var þá stórhertogadæmi Rússlands.“
Fyrir utan þetta upplýsir Niinistö lesendur sína um að Pútin hafi lagt það í vana sinn að gefa sér gjafir með duldri merkingu.
Eitt slíkt dæmi var heiðursmerki sem upphaflega hafði verið veitt Samuel Werner von Troil (1833–1900), sem í ræðum sínum mótmælti harðlega tilraunum Nikulásar II. keisara til að rússneskuvæða Finnland.
Þetta leiddi að lokum til þess að keisarinn ávítaði von Troil opinberlega árið 1899. Niinistö sá margar hliðstæður milli sín og von Troils – og taldi því gjöfina skrýtna.
Gjöf Pútíns til Niinistös í tilefni af 70 ára afmæli hans vakti þáv. Finnlandsforseta einnig til umhugsunar. Það var safn bréfaskipta milli stríðsleiðtoga Finnlands, Carls Gustaf Emil Mannerheim, og fjölskyldu hans.
„Hópurinn [ráðgjafar Niinistös] velti fyrir sér hvað þessi skilaboð, sem virtust styðja sjálfsákvörðunarrétt Finnlands, þýddu í raun og veru,“ skrifar Niinistö.
Niinistö og Sanna Marin, þáverandi forsætisráðherra Finnlands, tilkynntu á blaðamannafundi 12. maí 2022 þá sögulegu ákvörðun að Finnland myndi sækja um aðild að NATO.
Nokkrum dögum síðar átti Niinistö fyrir fram ákveðið símtal við Pútín.
„Við höfðum alltaf talað hispurslaust og mér fannst að þetta ætti líka að segja hispurslaust. Svo ég sagði honum að Finnland ætlaði nú að ganga í NATO,“ skrifar Niinistö og bætir við að Pútín hafi verið „furðu rólegur“.
„Hann sagði einfaldlega: „Þið eruð að gera mistök“, rifjar Niinistö upp.