13.1.2023 11:40

Niðurlæging Rússa magnast

Verður að telja að Úkraínumenn standi betur að vígi þegar litið er til sóknarmáttar, baráttuanda og skilnings umheimsins.

Merkilegt viðtal birtist við Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, í breska ríkisútvarpinu BBC í dag (13. janúar) og má lesa íslenska þýðingu á útdrætti úr því á vardberg.is.

Ráðherrann segir að í raun (de facto) sé Úkraína í NATO þegar litið sé til þess stuðnings sem Úkraínuher hafi fengið frá vestrænum ríkjum. Hann segir að þessi orð sín eigi ekki að stigmagna neitt. Orðrétt segir í fréttinni:

„Hann [ráðherrann] blæs á áhyggjur af því að tilkynningarnar [um aukinn hernaðarstuðning við Úkraníu frá NATO-ríkjum] kalli á svar frá Rússum hvað sem líði gamalkunnum hótunum frá Moskvu. „Það er háð stríð í landi mínu,“ segir hann. „Þeir skjóta á borgir mínar, sjúkrahúsin mín, leikskólana mína, skólana mína. Þeir drepa fjölda almennra borgara, fjölda barna. Þetta er her nauðgara, morðingja og þjófa. Hvert er næsta þrep stigmögnunarinnar?““

Þarna er talað af því raunsæi sem einkennt hefur framgöngu stjórnar Úkraínu allt frá því að Pútin gaf fyrirmælin um innrásina fyrir tæpum 11 mánuðum. NATO-ríki hafa stutt Úkraínu en NATO hefur haldið sig utan átakanna, bestu bandamenn Úkraínu eru í NATO og orð varnarmálaráðherrans staðfesta það.

Þegar rússneski herinn fór inn í landið og ætlaði að leggja það undir sig á nokkrum vikum snerust Úkraínumenn til varnar af miklum þunga og hafa síðan komið hvað eftir annað á óvart með viðnámsþrótti sínum og sóknarafli.

Tíminn sem Pútin valdi var sá sem hann taldi bestan til að beita her sínum til sóknar – 24. febrúar. Sá dagur nálgast nú að nýju óðfluga og er ljóst að bæði Úkraínumenn og Rússar búa sig undir orrustur með vorinu.

Verður að telja að Úkraínumenn standi betur að vígi þegar litið er til sóknarmáttar, baráttuanda og skilnings umheimsins. Þeim eru nú að opnast vestræn vopnabúr með miklu öflugri vopnum en þeir hafa nokkru sinni áður getað nýtt sér á sama tíma og Rússar hafa gengið svo á allan búnað sinn að þeir eru að þrotum komnir.

Oleksii Reznikov segir að skiptin á æðsta stjórnanda rússneska innrásarliðsins nú megi annars vegar rekja til valdabaráttu í Kreml og hins vegar til þess að flugskeytaárásirnar á borgaraleg grunnvirki og almenna borgara í Úkraínu hafi án ávinnings eytt of miklu af rússneskum flugskeytabirgðum.

64361455_906Saltnámubærinn Soledar er rústir einar þegar rússneski herinn segist hafa hann á valdi sínu.

Í Kreml er ekki aðeins tekist á um hver eigi að stjórna rússneska innrásarhernum heldur einnig hvernig eigi að hafa stjórn á málaliðaher vinar Pútins, Wagner hópnum, sem gerir kröfu til yfirráða og eignarhalds á saltnámubænum Soledar. Nú segist rússneski herinn hafa hann á valdi sínu þvert á það sem vinur Pútins, Prigozhin, hafði áður sagt þegar hann reyndi að slá eign sinni á mestu saltnámur í Evrópu.

Stríðinu í Úkraínu er ekki lokið. Viðbrögðin í Kreml benda til að þar búi menn sig undir að mæta ósigri sínum án þess að tapa öllu. Þeir hafa tapað pólitíska stríðinu á alþjóðavettvangi, þeir hafa tapað orkustríðinu í Evrópu og nú berjast þeir innbyrðis um eignarhald á saltnámum á svæði sem þeir hernámu 2014. Niðurlægingin er algjör.