8.4.2023 11:18

Niðurlæging Eflingar í ASÍ

Í aðdraganda ASÍ-þings undir lok mánaðarins nýtur Efling einsksis trausts innan verkalýðshreyfingarinnar – það undrar sósíalistana.

Sósíalistar undir forystu Gunnars Smára Egilssonar halda úti fjölmiðlinum Samstöðinni og berjast þar við auðvaldið, sem Gunnar Smári nauðaþekkir eftir þjónustu sína við það og setu við fjölmiðlaborð auðmannanna fyrir hrun.

Í pistli sem Gunnar Smári birti 6. apríl, skírdag, segir hann að „algjör upplausn“ ríki innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) „eftir að í ljós koma að landsbyggðarformenn innan Starfsgreinasambandsins vilja engan frið við kjörna forystu Eflingar og VR“.

Óvinir þess að samstaða náist innan ASÍ eru að mati Gunnars Smára þeir sem hann kallar „landsbyggðarformennina“, þeir sem starfa ekki að fyrirmælum Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR).

Fréttaskýring Gunnars Smára snýst öll um niðurlægingu Eflingar, félagið eigi til dæmis ekki nema „einn stjórnarmann af níu innan Starfsgreinasambandsins þótt félagar í Eflingu séu tæplega helmingur allra félaga innan sambandsins“. Til að bæta gráu ofan á svart sé Sólveig Anna sjálf ekki þessi stjórnarmaður heldur Ragnar Ólason, starfsmaður Eflingar.

Nýlega voru frambjóðendur Starfsgreinasambandsins til miðstjórnar ASÍ valdir. Enginn fulltrúi Eflingar náði kjöri í kosningunni.

Þarna er lýst undirbúningi undir 45. þing ASÍ sem haldið verður 27. til 28. apríl en í október varð að fresta þingstörfum vegna innbyrðis ágreinings um val á forseta og hefur Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrsti varaforseti ASÍ, verið starfandi forseti síðan. Hann ætlar ekki að gefa kost á sér í forsetaembættið þegar þingið kemur saman eftir 20 daga.

RASI

Það eru því góð ráð dýr fyrir verkalýðshreyfinguna. Skýringar Gunnars Smára á stöðu hennar eru bjagaðar svo að ekki sé meira sagt, hann kýs að hlaupa alveg yfir það sem gerðist í viðkvæmum kjaradeilum vetrarins þar sem Sólveig Anna kom í bakið á forystu Starfsgreinasambandsins eftir að hún samdi fyrir félagsmenn í sambandinu, aðra en þá sem eru í Eflingu. Félagsmenn sína dró Sólveig Anna út í tilgangslaus verkföll sem ýttu undir óvissu í efnahags- og atvinnumálum og þar með verðbólgu. Ragnar Þór skrifaði með hangandi hendi undir kjarsamning en skilaði auðu þegar kom að stuðningi við hann í atkvæðagreiðslu.

Fyrir ASÍ-þingið í október var Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og verkalýðsforingi á Akranesi, sannfærður um að hann mundi ásamt Sólveigu Önnu og Ragnari Þór hafa undirtökin á þinginu og Ragnar Þór yrði forseti ASÍ. Það fór allt í handaskolum. Ragnar Þór sprakk á limminu og Sólveig Anna gekk af þingi.

Vilhjálmur axlaði ábyrgð og braut síðan ísinn í kjaraviðræðunum með gerð samnings 3. desember 2022, lagði grunn að samfloti ASÍ-félaga sem er eitur í beinum Sólveigar Önnur. Hún lítur á kjaradeilur sem tækifæri til að kveikja ófriðarbál með verkföllum og berja þannig verkalýðshreyfinguna til fylgis við sig. Hreyfingin sundraðist þó enn frekar. Á þetta má ekki minnast í návist sósíalistanna eða á Samstöðinni.