7.7.2021 9:18

Neyðaróp Jóhönnu

„Áður en kosið verður til Alþing­is mun ný stjórn­ar­skrá, mótuð á stjórn­lagaþingi þjóðar­inn­ar, af­greidd á þingi. Þannig verður það svo lengi sem ég fæ ein­hverju ráðið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. janúar 2011.

Á vefsíðunni Viljanum undir ritstjórn Björns Inga Hrafnssonar sagði í ritstjórnardálki þriðjudaginn 6. júlí:

„Samfylkingin er í logandi vandræðum nú þegar styttist í haustkosningar. Fylgið er í frjálsu falli eftir að hafa verið með allra bærilegasta móti stóran hluta kjörtímabilsins og uppstillingar í einstökum kjördæmum hafa skilið eftir sig djúp sár. Hugmyndafræðin virðist á hraðri leið til vinstri undir forystu Loga Einarssonar og gamlir eðalkratar segja hverjum sem heyra vilja, að þeir geti ekki hugsað sér að kjósa flokkinn við þessar aðstæður.“

Þegar þetta er lesið ber að minnast þess að í kosningunum vorið 2013 eftir fjögurra ára samstjórn Samfylkingar og VG undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur töpuðu stjórnarflokkarnir 27% af fylginu sem þeir hlutu í kosningunum vorið 2009. Samfylkingin tapaði 11 þingmönnum og VG tapaði 7 þingmönnum.

Samfylkingin stóð utan ríkisstjórnar frá 2013 fram á haust 2016 þegar gengið var til kosninga. Þá minnkaði fylgi enn hennar enn frekar. Flokkurinn missti 7,2 prósentustig frá árinu 2013, sem þá var versta útkoma flokksins í kosningum frá stofnun hans árið 2000. Árið 2016 sinn fékk Samfylkingin aðeins 5,9% atkvæða og aðeins þrjá þingmenn. Árið 2013 fékk flokkurinn 12,9%, en árið 2009 fékk flokkurinn 29,7%. Í kosningum haustið 2017 náði Samfylkingin að rétta hlut sinn en fékk þó ekki nema 12,1% atkvæða, minna en í hrakförinni 2013 eftir Jóhönnu-stjórnina.

553991„Áður en kosið verður til Alþing­is mun ný stjórn­ar­skrá, mótuð á stjórn­lagaþingi þjóðar­inn­ar, af­greidd á þingi. Þannig verður það svo lengi sem ég fæ ein­hverju ráðið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. janúar 2011. Hún stóð ekki við fyrirheitið og ræðst nú á þingmenn fyrir aumingjaskap í stjórnarskrármálinu! (Mynd; mbl.is)

Jóhanna Sigurðardóttir hratt af stað stjórnlagaþingsferlinu með stuðningi VG og Framsóknarflokksins vorið 2009. Markmiðið var að hrifsa stjórnarskrárvaldið af alþingi og færa það í hendur stjórnlagaþings. Ætlunin var að stofna „nýtt lýðveldi“ með „valdaráni“ yrði ekki önnur leið fær. Var þetta hámark á popúlískum stjórnmálaafskiptum Jóhönnu á meðan hún sat í valdastöðu innan Alþýðuflokksins og síðar Samfylkingarinnar. Þegar dró að þingkosningum vorið 2013 beittu þeir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar frá febrúar 2013, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG í febrúar 2013, sér fyrir að sparka stjórnarskrár- og stjórnlagaþingshugmyndum Jóhönnu út af dagskrá alþingis.

Síðan hafa einkum Píratar haldið lífi í hugmynd Jóhönnu á þingi og á því kjörtímabili sem nú er að ljúka gekk Logi með Samfylkinguna til liðs við þá. Jóhanna Sigurðardóttir sendi þingmönnum kaldar kveðjur að kvöldi 6. júlí þegar hún sagði á FB-síðu sinni:

„Þetta er nú meiri ræfildómurinn hjá Alþingi Íslendinga. Níu ár og fjórar  kosningar eru liðnar frá því þjóðin samþykkti með 2/3 hluta atkvæða vilja sinn til að lögfest yrði ný stjórnarskrá – sem í grundvallaratriðum var samin af þjóðinni sjálfri.“

Í þessum orðum endurtekur Jóhanna enn lygina um það sem gerðist í október þegar hugmyndir um efnistök í stjórnarskrá voru lagðar fyrir þjóðina án þess að nokkur vissi í raun um hvað málið snerist. Jóhanna veit það greinilega ekki enn nema hún fari vísvitandi með ósannindi. Hvað gerir Logi nú?