8.1.2022 10:55

Neruda, Stalín og metoo

Þetta er allt liðin tíð en umræður um Neruda og líf hans halda áfram hvað sem bókmenntaarfinum líður.

Lítil frétt birtist á menningarsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 7. janúar um að litlu hefði mátt muna að ljóðskáldið Pablo Neruda (1904-1973) frá Chile hlyti ekki Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1971 vegna aðdáunar hans á Stalín og kommúnismanum. Gögn Sænsku akademíunnar um ákvörðun hennar að veita Neruda verðlaunin voru opnuð í upphafi þessa árs samkvæmt 50 ára reglu um leynd yfir slíkum skjölum. Innan akademíunnar voru raddir um að skoðanir Neruda væru „ósamrýmanlegar markmiði verðlaunanna“. Deilt hefur verið um hvort Neruda lést eðlilega vegna sýkingar og blöðruhálskrabba eða hvort honum var byrlað eitur.

Þetta er allt liðin tíð en umræður um Neruda og líf hans halda áfram hvað sem bókmenntaarfinum líður. Í um það bil áratug hafa hópar í Chile viljað að alþjóðaflugvöllurinn við höfuðborgina Santiago bæri nafn skáldsins. Var tillaga um það til umræðu á þingi landsins árið 2018 en frá hugmyndinni var fallið vegna andmæla kvenna í krafti metoo-hreyfingarinnar. Rifjað var upp að í endurminningum sínum lýsti Neruda þegar hann árið 1929 nauðgaði konu af lágstéttum á Ceylon (nú Sri Lanka) sem þreif fyrir hann útihús. Neruda var þá stjórnarerindreki fyrir Chile í Ceylon.

Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar þar sem Neruda kemur við sögu. Ein Neruda (2016) lýsir því þegar hann flýði vegna stjórnmálaafskipta sinna um fjallveg frá Chile til Argentínu á þriðja áratugnum. Þar bregður fyrir myndskeiðum sem sýna á honum ýmsar hliðar. Ítalska myndin Il postino (1994) er reist á skáldsögu þar sem lýst er vináttu Neruda við bréfbera sem heillast af ljóðlist. Í fyrra var mynd frá Sri Lanka um dvöl Neruda á eyjunni 1929-1931 frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Tókýo. Á ensku heitir myndin The Dawning of the Day Dagrenning. Asoka Handagama er leikstjóri hennar. Hann ákvað að segja söguna af skáldinu og stjórnarerindrekanum eftir að hafa lesið æviminningar Neruda, Luminous Solitude, þar sem hann lýsir nauðguninni eins og „eðlilegum hlut“. Efnistök myndarinnar eru sögð á þann veg ekkert sé undan dregið í lýsingum á lifnaðarháttum skáldsins.

A7d0e447d10924fb7564072bce05d481Pablo Neruda

Nýlega var ungur vinstrisinni kjörinn forseti Chile. Ef til vill tekur hann tillöguna um að nefna flugvöllinn eftir Neruda upp á sína arma. Það er þó ólíklegt því að fyrirlitningin og skömmin sem mætir minningu þeirra sem gerst hafa sekir um ofbeldi gagnvart konum vegur þyngra en aðdáun og hollusta við Stalín þegar teknar eru ákvarðanir um viðurkenningu og virðingarauka.

Sænska akademían var um nokkurt skeið undirlögð af einstaklingum sem síðar hröktust á brott eða sættu refsingu fyrir áreiti og ofbeldi gagnvart konum. Bókin Klúbburinn  sem kom út hjá Uglu útgáfu í fyrra lýsir því hneyksli og hve það kostaði mikla áreynslu og dugnað að afhjúpa það og fá birt í fjölmiðlum.

Hér á landi steig Vítalía Lazareva fram í hlaðvarpsþætti Eddu Falak í vikunni og sagði frá ofbeldi sem hún taldi sig hafa verið beitta af karlmönnum sem allir ákváðu að víkja til hliðar úr áhrifastöðum sínum. Alvarleiki ofbeldisins er eitt hitt er áhrifamáttur frásagnar í hlaðvarpi einstakslings.