3.2.2021 9:48

Navalníj um „þjófótta smámennið í byrginu“

Í ágúst 2020 reyndu útsendarar rússnesku öryggislögreglunnar FSB að drepa Navalníj með því að setja eitur í nærbuxur hans.

Árið 2014 var Alexei Navalníj dæmdur í þriggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi í Rússlandi, sakaður um fjársvik. Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst að þeirri niðurstöðu að ólöglega hefði verið að málum staðið. Vegna dómsins sat Navalníj eitt ár í stofufangelsi en eftir dóm MDE greiddi rússneska ríkið honum skaðabætur. Í ágúst 2020 reyndu útsendarar rússnesku öryggislögreglunnar FSB að drepa Navalníj með því að setja eitur í nærbuxur hans. Honum var bjargað til Þýskalands en var handtekinn þegar hann kom frá Berlín til Moskvu 17. janúar 2021. Þriðjudaginn 2. febrúar var hann dæmdur í Moskvu fyrir að hafa rofið skilorðið og ákveðið að hann sæti tvö og hálft ár í fangelsi. Þeir sem reyndu að drepa hann með eitri senda hann nú í fangabúðir.

56413983_303Alexei Navalníj í handjárnum leiddur til sýndarréttarhalda og fangelsisvistar.

Við réttarhöldin 2. febrúar 2021 flutti Navalníj ræðu og sagði meðal annars:

„Skýringin [á réttarhöldunum] er hatur og ótti eins manns – eins manns sem felur sig í byrgi. Ég móðgaði hann ákaflega með því að halda lífi. Ég hélt lífi, þökk sé góðu fólki, flugmönnum og læknum. Og síðan bætti ég gráu ofan á svart með því hlaupa ekki í felur. Loks gerðist það sem er sannarlega hrollvekjandi: ég tók þátt í rannsókn á eiturárás á sjálfan mig og okkur tókst að sanna að í raun bar Pútin ábyrgð á þessari morðtilraun með því að nota rússnesku öryggislögregluna [FSB]. Og þess vegna er þjófótta smámennið í byrginu að verða viti sínu fjær. Vegna þessa er hann einfaldlega að ganga af göflunum.

Það eru engar skoðanakannanir. Enginn fjöldastuðningur. Ekkert slíkt. Það kemur einfaldlega í ljós að ráðið til að takast á við pólitískan andstæðing sem hefur engan aðgang að sjónvarpi og styðst ekki við neinn stjórnmálaflokk er að beita efnavopnum til að reyna að drepa hann. Þess vegna er hann auðvitað að verða vitstola yfir þessu. Af því að allir voru sannfærðir um að hann væri ekki annað en skriffinnur sem hefði hlotið núverandi stöðu fyrir slysni. Hann hefur aldrei tekið þátt stjórnmálaumræðum eða í kosningabaráttu. Hann kann aðeins að berjast til að drepa. Sagan mun minnast hans sem eiturbyrlara. Við munum öll Alexander frelsara [Alexander II.] og Jaroslav vitra [Jaroslav I.]. Já, nú höfum við eignast Vladimir nærbuxna-eiturbyrlara.

Ég stend hér í gæslu lögreglumanna og þjóðvarðliðið er hér fyrir utan eftir að hafa lokað hálfri Moskvu. Allt er þetta vegna þess að smámennið í byrginu er vitstola. Hann er vitstola vegna þess að við sönnuðum og sýndum að hann helgar sig ekki geópólitík; hann boðar hins vegar til funda til að ákveða hvernig eigi að stela nærbuxum stjórnmálamanna og bera á þær efnavopnum í von um að geta drepið þá.[...]

Ég vona innileg að fólk líti ekki að þessi réttarhöld á þann hátt að hræðsla þess aukist. Þau eru ekki til marks um styrk – þau eru til marks um máttleysi. Það er ekki unnt að fangelsa milljónir og hundruð þúsunda manna. Ég vona innilega að fólk átti sig á því. Og svo verður. Það er ekki unnt að breyta heilu landi í fangelsi.

Eina sem eykst í [Rússlandi] er fjöldi milljarðamæringa. Allt annað minnkar. Ég er innilokaður í fangaklefa og eina sem ég heyri í sjónvarpi er að smjör verður dýrara. Egg verða dýrari. Fólk er svipt framtíðinni.[...]

Ég held því fram að margt sé gott í Rússlandi um þessar mundir. Allra best er fólkið sem er ekki hrætt – fólk sem lítur ekki undan og mun aldrei afhenda land okkar hópi spilltra embættismanna sem vilja nota það til að eignast hallir, vínekrur og fleyti-diskó.

Ég krefst þess að verða látinn laus hér og nú og að allir pólitískir fangar verði látnir lausir. Ég viðurkenni ekki framgöngu ykkar hér – þetta er sýndarmennska og algjört lögbrot.“