Nauðsyn embættismanna
Veikleiki íslenska stjórnkerfisins felst frekar í skorti á pólitískri forystu en embættismannavaldi. Raunverulegir forystumenn í stjórnmálum hlaupa ekki á eftir almenningsálitinu.
Þáverandi ríkisstjórn ákvað 31. janúar 2023 að koma á fót starfshópi til að leggja mat á stöðu embættismannakerfisins á Íslandi og starfsskilyrði starfsmanna ríkisins með hliðsjón af stöðu og þróun í nágrannalöndum.
Starf hópsins tók mun lengri tíma en vænst var en hann skilaði langri skýrslu, Kjölfesta í hringiðu lýðræðis, í október. Segja má að hún hafi fengið blendnar viðtökur.
Hér skal tekið undir þá skoðun að vinna við skýrslugerðina hafi farið úr böndum og skort hafi þá ritstjórnarlega forystu varðandi tímaramma og umfang.
Efnið sem tekið er til athugunar í skýrslunni er tímabært. Það beinir athygli að neikvæðri þróun hér sem ekki má rekja til embættismannakerfisins heldur stjórnmálamannanna. Þeir hafa jafnt og þétt úthlutað sér meiri fjármunum til að raða í kringum sig her aðstoðarmanna, jafnt á alþingi sem í stjórnarráðinu. Þetta eru fylgihnettir ráðherra í ráðuneytum og þeirra sem ráða í þingflokkum hverju sinni.
Sá tími virðist liðinn að ráðherrar hafi opinn viðtalstíma að minnsta kosti einu sinni í viku. Þeir sem vilji ræða við ráðherra skrái sig hjá ritara hans og gangi að því vísu að t.d. á miðvikudagsmorgnum taki ráðherrann á móti þeim sem séu á listanum.
Nú berast fregnir um að nær ógerningur sé að ná tali af ráðherrum. Þeir sem það reyna verða að brjótast í gegnum aðstoðarmannamúrinn. Þetta á ekki aðeins við um almenna borgara heldur einnig þá sem eiga erindi við ráðherrann í embættiserindum.
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg (mynd: vefsíðan Ferlir).
Ekkert eykur vald þeirra sem ekki hafa umboð sem kjörnir fulltrúar meira en að skera á bein samtalstengsl ráðherra við samfélagið. Kannski minnkaði áhugi almennings líka á slíkum beinum samskiptum af því að reynslan varð sú að þau skiptu engu máli. Ráðherrann gerði ekkert með það sem við hann var sagt eða hafði ekki þrek til að standa við það sem lofað var, komst ekki sjálfur í gegnum virkisvegginn sem hann hafði reist.
Aðstoðarmannaskarinn á alþingi kann að gera kjósendum ókleift að ná talsambandi við kjörna fulltrúa sína nema ef til vill í kjördæmavikum.
Í niðurstöðum skýrslunnar Kjölfesta í hringiðu lýðræðis segir að mikill samhljómur sé milli alþjóðlegra viðmiða og meginreglna hér á landi að því er varði hlutverk æðstu starfsmanna ríkisins. Ísland skeri sig þó úr að sumu leyti. Hvergi sé ráðherra jafn einráður um val á æðstu starfsmönnum.
Nú tíðkast að flytjist ráðherrar hér milli ráðuneyta taki þeir ráðuneytisstjórann úr gamla ráðuneytinu með sér. Þetta gengur gegn hugmyndum um að embættismannakerfið sé aðgreint frá pólitískum valdhöfum. Í skýrslunni segir að hugmyndin sé reist á því að embættismenn vinni að almannaheill og að sú skylda þeirra sé ofar hollustu við ráðamenn á hverjum tíma.
Veikleiki íslenska stjórnkerfisins felst frekar í skorti á pólitískri forystu en embættismannavaldi. Raunverulegir forystumenn í stjórnmálum hlaupa ekki á eftir almenningsálitinu. Þeir fara að lögum og fylgja stefnu sem stenst gagnrýni og er reist á ráðgjöf og faglegu mati sjálfstæðra embættismanna.