16.6.2023 9:31

Nátttröllamál á þingi

Fjögur mál sem nú ber hátt vekja enn spurningar um hvort svo sé komið að á alþingi sitji svo mörg nátttröll að bilið aukist stöðugt á milli þings og þjóðar.

Fjögur mál sem nú ber hátt vekja enn spurningar um hvort svo sé komið að á alþingi sitji svo mörg nátttröll að bilið aukist stöðugt á milli framtaksvilja þjóðarinnar og þeirra sem hafa höndina á bremsu löggjafarvaldsins. Málin eru:

1. Lagaflækjur í kringum orkuvinnslu og virkjanir eru á þann veg að þar er engin sýn yfir það sem kann að gerast á leið þeirra sem vilja auka græna orkuvinnslu. Umhverfis- og orkumálaráðherra er þrumu lostinn yfir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi 15. júní úr gildi ákvörðun Orkustofnunar um veitingu virkjanaleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Þarna er sem sagt svo lítið gagnsæi við töku tugmilljarða ákvarðana að innan ráðuneytis málaflokksins skortir yfirsýn svo að ekki sé minnst á lagalegt umboð til pólitískra ákvarðana. Alþingi hefur afsalað sér og umbjóðanda sínum, ráðherranum, vald í hendur nefndar sem kemur aftan að öllum á ögurstund.

Screenshot-2023-06-16-at-09.28.50

2. Alþingi hefur hannað lagaumgjörð í útlendingamálum sem gerir sjálfstæðri úrskurðarnefnd kleift að taka ákvarðanir um streymi útlendinga til landsins og skuldbinda ríkissjóð til sífellt hærri útgjalda, þau eru nú að nálgast annan tug milljarða á ári og spáð er enn meiri hækkun. Fyrir náð og miskunn þingmanna var unnt að gera útþynntar breytingar á útlendingalögunum í vetur. Höfuðáhersla var lögð á að breytingarnar bitu sem minnst.

3. Hvað eftir annað hafa verið lagðar fyrir alþingi tillögur um að laga áfengislöggjöfina að breyttum tímum og verslunarháttum. Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar, einkum til að bregðast við vexti smábrugghúsa sem náðu að skjóta rótum úti um land – byggðastefnurök náðu eyrum þingmanna. Nú kvarta sumir þeirra undan því að „gloppa“ sé í löggjöfinni sem geri innlendum fyrirtækjum kleift að selja áfengi á netinu, vegna EES-aðildar hafa einstaklingar getað flutt inn net-áfengi milliliðalaust að utan. Tekist er á um þessa gloppu og annað sem á rætur í bannlögunum á sínum tíma í umræðum um áfengismál á þingi. Bjórinn kom í gegnum fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli fyrir framtak einstaklings á sínum tíma. Nú er einkaframtakið að brjóta nýja leið gegn ríkiseinokun og þingmenn klóra sér í hausnum og horfa aftur til 1930.

4. Til að viðhalda hafti á íslenska neytendur, frumkvöðla, framkvæmdamenn og alla aðra sem vilja njóta réttinda samkvæmt EES-samningnum frá 1994 tókst með misbeitingu formannsvalds í utanríkismálanefnd alþingis að stöðva framgang máls sem miðar að því að lög séu skýrð í samræmi við EES-samninginn. Tafir eru eitt, hitt er verra að þetta sjálfsagða umbótamál skuli notað til blekkingavaðals um EES-samninginn.

Samfylkingarfólk fagnar stöðvun Hvammsvirkjunar af því að orka þaðan yrði seld til óverðugra, þeirra sem bjóða viðskipti með rafmynt. Nú eru gagnaver orðin bölvaldur eins og álver voru á sínum tíma. Við eigum sem sagt stolt að leggja stein í götu framfara á heimsvísu. Gervigreindarfyrirtæki leita fyrir sér um græna orku. Við skulum sko sjá til þess að þau komist ekki í sambann hér!