6.1.2023 10:02

Nagladekkjastríðið harðnar

Vegna ófærðar sem var á fyrri hluta árs 2022 og reynslu ökumanna þá fjölgaði þeim í haust sem ákváðu að setja nagladekk undir bíla sína.

Frostið og lognið á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt af sér mengungarský. Sagði í fréttum í morgun (6. janúar) að mengun á höfuðborgarsvæðinu hefði farið 19 sinnum yfir heilsuverndarmörk það sem af er ári. Þetta væri meira en leyfilegur fjöldi yfir heilt ár – hverju það breytir var ekki sagt.

Í ljós kemur að sama á við um viðbrögð Reykjavíkurborgar við þessu ástandi og við snjókomunni á dögunum, að það hafi verið í skoðun hvernig við skyldi brugðist á markvissan hátt. Nú skorti reglugerð um útfærslu á viðbrögðum. Þegar ekki var gripið til snjóruðnings fyrr en seint og um síðir var afsökunin að skort hefði fulltrúa minnihlutans í einhvern stýrihóp!

Vegna mengunarinnar nú hafa talsmenn borgaryfirvalda gert aðför að einkabílnum og nagladekkjum.

Vegna ófærðar sem var á fyrri hluta árs 2022 og reynslu ökumanna þá fjölgaði þeim í haust sem ákváðu að setja nagladekk undir bíla sína. Þótt komi einstaka logn- og frostdagar telja margir bíleigendur og ökumenn öryggi sínu almennt best borgið á nagladekkjum í vetrarfæri.

Fb_cover_vetrardekk_851x315Dagur B. Eggertsson segir að kallað hafi verið eftir því að fara sömu leið og Norðmenn, það er að segja að einungis þeir sem þurfi að vera á nagladekkjum séu á nagladekkjum. Til að stýra þessu verði innleitt nagladekkjagjald. Þingmenn hafa ekki veitt heimild til þessa en að sögn borgarstjóra voru í staðinn lögfestar „heimildir til að tempra mengun á miklum mengunardögum“. Þar sem reglugerð skorti viti borgin „ekki nákvæmlega í hverju þetta felst“. Á hinn bóginn sé það „hluti af lýðheilsustefnu borgarinnar að endurskoða aðgerðaráætlun um loftgæði“.

Borgin er með öðrum orðið með málið í nefnd. Dagur B. segir borgina ekki vilja ganga svo langt að banna nagladekk. Á ruv.is segir:

„Dagur segir þá sem nauðsynlega telja sig þurfa að nota nagladekk borgi hluta af slitinu og að notkun verði tempruð með gjaldtöku. Aðspurður segir Dagur skort á snjómokstri ekkert blandast inn í þá umræðu enda gagnist nagladekk lítt í snjó.“

Dagur B. hafnar þeirri skoðun sem fréttamaður ríkisútvarpsins nefnir að með auknu umferðarflæði megi draga úr mengun. Borgarstjóri segir:

„Nei. Það er mikið nefnt sem einhvers konar svar. En svo er því miður ekki. Ég held það séu engar töfralausnir aðrar en þær að beina því til ökumanna eða grípa til einhverra aðgerða sem tempra svo að mengunarástandið bitni ekki á þeim sem eru veikir fyrir.“

Meginniðurstaðan yfirvalda Reykjavíkurborgar er þessi: þegar misheitt loft safnast í lög í logni og vetrarstillum eru einkabílar og ökumenn á nagladekkjum höfuðskaðvaldurinn!

Höfnun einkabílsins er og verður lífstíll minnihluta fólks. Sigurinn á náttúruöflunum er auðveldur, krefjist hann ekki þyngri byrða en gjaldtöku af nagladekkjum.