28.12.2025 10:36

Myrkurgæði ljósvistarstefnu

Borgarstjórn samþykkti að lokinni langri athugun sérstaka ljósvistarstefnu nú í desember. Þar er að finna stefnu og markmið um borgarlýsingu í því skyni að bæta lífsgæði og öryggi, vernda myrkurgæði.

Það er ekki góð ljósmynd sem fylgir þessum pistli en hana tók ég við Blindraheimilið í Hamrahlíð snemma í morgun (28. des.) af Hamrahlíðinni í átt að Eskitorgi. Á vinstri hönd við götuna er Hlíðaskólinn.

Myndin er heimild um að ekkert ljós sé á ljósalömpum borgarinnar við þennan hluta Hamrahlíðar þar sem fjöldi barna á leið í skólann á starfstíma hans. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem gatan er svona myrkvuð. Til vinstri á myndinni má sjá græna birtu frá gönguljósi sem þarna er. Við það ljós er ekki nein sérstök lýsing fyrir gangbrautina yfir götuna.

IMG_3163

Um það leyti sem börnin streyma í skólann, rúmlega átta að morgni, er yfirflæði í umferðinni um Kringlumýrarbraut og vegna þess er fleiri bílum en venjulega ekið af henni til vinstri inn í Hamrahlíðina í von um að sú leið sé greiðfærari vestur í bæ. Við það eykst ekki aðeins umferð um Hamrahlíðina heldur einnig Lönguhlíðina á leið barna í Hlíðaskólann.

Á mbl.is birtist 27. desember viðtal við Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem segir að borgarfulltrúar fái stöðugt fleiri ábendingar um skort á götulýsingu í borginni.

Borgarstjórn samþykkti að lokinni langri athugun sérstaka ljósvistarstefnu nú í desember. Þar er að finna stefnu og markmið um borgarlýsingu í því skyni að bæta lífsgæði og öryggi, vernda myrkurgæði, minnka ljósmengun og draga fram sérkenni borgarinnar. Borgarlýsing er samheiti yfir alla útilýsingu í borgarumhverfi, þar á meðal götu- og stígalýsingu, lýsingu á opnum svæðum, skólalóðum, íþróttasvæðum, bílastæðum, kennileitum, listaverkum og í undirgöngum, sem og flóðlýsingu á mannvirki.

Kjartan Magnússon bendir á að stefnan sé meingölluð að því leyti að þar sé „lítið sem ekkert minnst á sjálft viðhaldið“ það sé þó „í mestu ólagi í borginni“.

Í fréttinni á mbl.is segir frá því að við afgreiðslu á ljósvistarstefnunni í borgarstjórn hafi sjálfstæðismenn lagt fram tvær breytingartillögur um (1) viðhald á götulömpum til að tryggja fullnægjandi lýsingu gatna og (2) um að markviss bilanaleit yrði hluti af viðhaldinu og brugðist yrði við „ábendingum um bilaða götulampa innan þriggja virkra daga“.

Breytingartillagan hlaut ellefu atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar en var felld með tólf atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

Ljósvistarstefnunni fylgir aðgerðaáætlun til ársins 2030. Meirihluti borgarstjórnar taldi greinilega að tillögur um nauðsyn viðhalds og skyldu til að bregðast skjótt við ábendingum borgarbúa um hættur vegna myrkvunar og viðhaldsleysis spilltu fyrir að stefnunni yrði hrundið í framkvæmd fyrir árið 2030. 

Að fella tillögur um þetta efni er einnig ábending til þeirra sem vinna að framkvæmd ljósvistarstefnunnar að þeir eigi ekki að forgangsraða í þágu viðhalds; það samræmist ekki markmiði ljósvistarstefnunnar um að auka lífsgæði í Reykjavíkurborg. Myrkurgæði skipta að sjálfsögðu máli eins og segir í þessari nýju stefnu en þeim verður að velja réttan stað.