21.9.2022 9:08

Myrk RÚV-frétt um þjóðarhöll

Fréttin um þjóðarhöllina er dæmigerð fyrir hvernig tekið er á málum í Efstaleiti. Í stað þess að upplýst sé hvernig staðið sé að undirbúningi og áætlanagerð er talað um skort á fjárheimildum.

Viku fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor fóru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason íþróttamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Laugardal og rituðu undir yfirlýsingu um að þjóðarhöll fyrir íþróttir risi árið 2025.

Í fréttatíma ríkisútvarpsins þriðjudaginn 20. september sneri Kristín Sigurðardóttir sér til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og spurði hann um framkvæmd þessarar yfirlýsingar. Í fréttinni sagði:

„Guðmundur Gunnarsson landsliðsþjálfari var myrkur [svo!] í máli í viðtali 16. apríl sl. „Það er eitthvað sem er óskiljanlegt og mér finnst þetta [skortur á þjóðarhöll] þjóðarskömm hvernig þetta er orðið.““

Guðmundur var alls ekki myrkur, það er óskýr, í máli sínu heldur ómyrkur eins og orð hans sýna. Fréttastofan gaf til kynna að Bjarni Benediktsson stæði í vegi fyrir því að eitthvað gerðist, aðeins hundrað milljónir væru eyrnamerktar þjóðarhöllinni í fjárlagafrumvarpi 2023. Fjármálaráðherrann sagði málið ekki stranda á skorti á fjárheimildum.

Á ruv.is í dag (21. sept.) segir:

„Var þessi yfirlýsing undirrituð vitandi það að það fengist ekki fjármagn?

„Ja, nú undirritaði ég ekki þessa yfirlýsingu. Þetta mál er ekki að stranda á neinu fjármagni. Fyrst þarf að ákveða hvað á að byggja, hver ætlar að byggja það, í hvaða hlutföllum á kostnaðarskiptingin að vera milli ríkis og borgar, í hvaða tilgangi verður húsið reist? Verður þetta eingöngu fyrir íþróttir eða á þetta að vera meira fjölnota hús? Hver ætlar að reka húsið?,“ segir Bjarni.“

2022-05-06-15-49-59-340Ráðherrar og borgarstjóri rituðu undir yfirlýsingu um þjóðarhöll 6. maí 2022 (mynd Reykjavíkurborg).

Þá er fjármálaráðherra spurður hvort það verði fjárheimildir árið 2024! Hann segir „algjörlega út í hött að velta fyrir sér fjárheimildum einhvern tímann í framtíðinni í tengslum við þetta mál. Þetta mál er ekki stranda á skorti á fjárheimildum. Þetta mál er í undirbúningi og hefur tekið of langan tíma vegna þess að það hefur ekki fengist niðurstaða í það hvers konar hús á byggja, hver ætlar að eiga það og hver ætlar að reka það“.

Fréttin um þjóðarhöllina er dæmigerð fyrir hvernig tekið er á málum í Efstaleiti. Í stað þess að upplýst sé hvernig staðið sé að undirbúningi og áætlanagerð er rokið í þann stjórnmálamann sem ekki á hlut að þeim þætti málsins og látið í það skína að málið strandi á honum.

Sé rétt munað talaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um að hann hefði 2,5 milljarða handbæra til að einhenda sér í smíði þjóðarhallarinnar strax og hann fengi endurnýjað umboð í kosningunum. Hann tapaði að vísu fylgi en situr þó áfram sem borgarstjóri og nú í skjóli flokks Ásmundar Einars Daðasonar, Framsóknarflokksins.

Það er alveg óþarfi að flytja myrkar fréttir um þetta mál til að beina ábyrgðinni á því á herðar annarra en bera hana. Spurningunum sem Bjarni Benediktsson varpaði fram við fréttamann ríkisútvarpsins verður að svara. Skyldi fréttastofan leita þeirra svara?