13.12.2022 10:32

Mútuhneyskli á ESB-þingi

Þingforsetinn sagði að illvirkjar tengdir einræðisríki hefðu virkjað frjáls félagasamtök, verkalýðsfélög, einstaklinga, starfsmenn ESB-þingsins og þingmenn í viðleitni til að hafa áhrif á afgreiðslu mála á þinginu.

Belgíska lögreglan greip til víðtækra aðgerða föstudaginn 9. desember til að upplýsa hneykslis- og mútumál sem skekur ESB-þingið. Við leit í hótelherbergi fann lögreglan tösku fulla af 50 evru-seðlum, skiptir verðmætið tugum milljónum íslenskra króna. Eigandi töskunnar er Alexandros Kailis.

Hann er faðir eins varaforseta ESB-þingsins, Evu Kaili, þingmanns gríska Jafnaðarmannaflokksins, PASOK. Hún situr nú á bk við lás og slá grunuð um aðild að alvarlegasta spillingarmáli sem afhjúpað hefur verið og tengist ESB-þinginu.

Starfsmaður ESB-þingsins, sambýlismaður Evu Kaili er meðal þeirra sem eru í varðhaldi vegna málsins eftir að um 150.000 evrur (um 23 m.kr.) fundust í seðlum heima hjá þeim.

Fyrrverandi ESB-þingmaður frá Ítalíu, Pier Antonio Panzeri, er einnig í varðhaldi. Hjá honum fundust um 90 m. kr. í reiðufé. Belgískir saksóknarar telja hann höfuðpaurinn í glæpahring sem er grunaður um peningaþvætti og spillingu að undirlagi gestgjafa heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, ráðamanna Qatar. Fyrir þeim vaki að tryggja sér stuðning og velvild á ESB-þinginu með fjárgreiðslum og dýrum gjöfum. Utanríkisráðuneyti Qatar mótmælti þessum ásökunum harðlega sunnudaginn 11. desember, sagði þær „tilhæfulausar“.

104469Gríski ESB-þingmaðurinn Eva Kaili á funddi með atvinnumálaráðherra Qatar.

Roberta Metsola frá Möltu, forseti ESB-þingsins, sagði í ræðu á þinginu mánudaginn 12. desember að þeim yrði ekki sýnd „nein miskunn“ sem gerst hefðu sekir um spillingu og tengdust þinginu á einn hátt eða annan. Hún sagði að gerð hefði verið „árás“ á ESB-þingið og á evrópskt lýðræði.

Þingforsetinn sagði að illvirkjar tengdir einræðisríki hefðu virkjað frjáls félagasamtök, verkalýðsfélög, einstaklinga, starfsmenn ESB-þingsins og þingmenn í viðleitni til að hafa áhrif á afgreiðslu mála á þinginu. Þeim hefði ekki tekist ætlunarverk sitt. Málinu væri þó ekki lokið. Samhliða því sem málið yrði upplýsti þyrfti þingið sjálft að endurskoða eigin reglur um gagnsæi í samskiptum þingmanna við erlenda aðila. Engu yrði sópað undir teppið heldur hæfist innri rannsókn í þinginu auk þess sem leitað yrði leiða til að þingið yrði betur varið fyrir ásókn af þessu tagi.

Í fréttum segir að Kaili hafi fyrr í desember greitt atkvæði í þingnefnd með niðurfellingu vegabréfsáritana fyrir ríkisborgara Qatar og Kuweit inn í ESB og á Schengen-svæðið. Málinu verði nú vísað aftur til meðferðar í nefndinni.

Þetta er hörmulegt mál í öllu tilliti. Snúist það um mútur til ESB-þingmanna til að greiða leið inn á Schengen-svæðið fyrir þá sem bera vegabréf frá Qatar og Kuweit er það aðeins enn eitt dæmið um að öllum ráðum er beitt, löglegum og ólöglegum, til að veikja vörslu evrópskra landamæra. Leitað er að veikasta blettinum og hamrað á honum í von um að opna leið.

Að sótt skuli að ESB-þingmönnum með fégjöfum og þeir reynst til sölu sýnir að sumum er ekkert heilagt þegar hátt er boðið. Þeir sem láta stjórnast af eigin fégræðgi við afgreiðslu þingmála viðurkenna þann veikleika sinn aldrei þeir tala þvert á móti er gjarnan hæst um að mannréttindi og mannúð ráði för.