6.12.2018 11:13

Mulroney rifjar upp minningu af NATO-fundi

Brian Mulroney, fyrrv. forsætisráðherra Kanada, var meðal þeirri sem fluttu minningarræðu við útför George H. W. Bush Bandaríkjaforseta.

Brian Mulroney, fyrrv. forsætisráðherra Kanada, var meðal þeirri sem fluttu minningarræðu við útför George H. W. Bush Bandaríkjaforseta í dómkirkjunni í Washington DC í gær (5. desember). Hann sagði meðal annars:

„Á fyrsta NATO-fundi sínum sem nýr forseti Bandaríkjanna [í Brussel 29. maí 1989] punktaði George – sem sat andspænis mér – mikið hjá sér þegar ríkisoddvitarnir töluðu. Við höfðum takmarkaðan tíma. Það er mikil upphefð að vita af forseta Bandaríkjanna punkta hjá sér það sem maður segir, meira að segja hógvær maður eins og ég skaut inn lýsingarorði hér og þar til að njóta ánægjunnar af þessu sem lengst.

Eftir að Mitterrand forseti, Thactcher forsætisráðherra og Kohl kanslari höfðu talað kom röðin að forsætisráðherra Íslands hann talaði – á meðan Bush forseti hélt áfram að skrifa – og talaði og talaði og talaði – hætti ekki fyrr en framkvæmdastjóri NATO tók ákveðinn af skarið og gaf kaffihlé.

George lagði frá sér pennann, gekk til mín og sagði: „Brian, nú rétt í þessu hef ég lært grundvallarreglu alþjóðamála.“ „Hver er hún?“ spurði ég. Bush svaraði: „Því minna land, þeim mun lengri ræða.“

Afp_1bd327George W. Bush þakkar Brian Mulroney minningarræðuna um föður sinn.

George Bush sat fyrsta NATO-fund sinn sem forseti 29. maí 1989 og þar var Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra ásamt Jóni Baldvini Hannibalssyni utanríkisráðherra. Af endursögn  Morgunblaðsins af ræðu Steingríms má ráða að hann hafi farið mörgum orðum um fækkun kjarnorkuvopna. Afvopnunarmál voru höfuðefni fundarins og leiðir til að fækka meðaldrægum kjarnorkueldflaugum í Evrópu.

Kristófer Már Kristinsson var þá fréttaritari Morgunblaðsins í Brussel og hafði hann eftir Steingrími 30. maí að fyrir leiðtogafundinn hefðu íslensk stjórnvöld dregið til baka tillögur sínar um afvopnun á hafinu sem þau ætluðu að ræða á leiðtogafundinum. Tillögurnar nutu ekki stuðnings og sagði Steingrímur að hann hefði harmað það í ræðu sinni.

Næst hittust þeir George Bush og Steingrímur á NATO-fundi 4. desember 1989. Steingrímur sagði þá við Kristófer Má „að hann hefði lýst  vonbrigðum Íslendinga með að Bush skyldi vísa hugmyndum 

um afvopnun á höfunum á bug.“ Í þriðja sinn voru þeir Bush saman á NATO-leiðtogafundi í júlí 1990. Þá tókst Steingrími og Jóni Baldvini ekki heldur að fá neitt samþykkt um afvopnun á höfunum.