Myrkraverk vegna makríls
Ríkisstjórnin hefur hafið ESB-aðlögunina án umboðs frá alþingi og án þess að skýra utanríkismálanefnd alþingis frá viðræðumarkmiðum sínum - það sýnir makrílsamningur.
Ríkisstjórnin hefur hafið ESB-aðlögunina án umboðs frá alþingi og án þess að skýra utanríkismálanefnd alþingis frá viðræðumarkmiðum sínum. Þetta kemur fram í umræðunum sem nú fara fram í tilefni af fyrsta samningnum sem ríkisstjórn Íslands hefur gert um veiðar á makríl í íslenskri lögsögu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tilkynnti þriðjudaginn 16. desember að hún hefði undirritað sögulegan samning við Bretland, Noreg og Færeyjar um skiptingu hlutdeildar á milli ríkjanna fjögurra í makríl. Samkomulagið gilti til ársloka 2028. Ekki væri um heildstæðan samning strandríkja í makríl að ræða því utan samnings stæðu Grænland og ESB.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega að utanríkismálanefnd hefði ekki verið upplýst um gerð og efni samkomulagsins. Ákvörðun ráðherra að upplýsa ekki nefndina um framgang málsins græfi undan því trausti milli þings og ríkisstjórnar í utanríkismálum.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýstu yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun ráðherra og töldu verulega hagsmuni Íslands og áralanga baráttu fyrir sanngjörnum strandríkjahlut landsins að litlu höfð.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins 16. desember sagði að lengi vel hefðu önnur strandríkin ekki viðurkennt stöðu Íslands sem strandríkis í makríl og því hefði gengið erfiðlega að fá sæti við samningaborð um skiptingu stofnsins. Utanríkisráðherra sagði viðurkenninguna miklu skipta.
Þetta gefur ekki rétta mynd. Vorið 2009 ákváðu íslensk stjórnvöld fyrst einhliða makrílkvóta við Ísland í óþökk annarra strandríkja. Í október 2010 buðu Norðmenn og ESB íslenskum fulltrúum til samningafundar um makrílveiðar. Íslendingum var gert tilboð sem þeir höfnuðu og héldu sínu einhliða striki.

Össur Skarphéðinsson leiddi ESB-aðildarviðræðurnar sem utanríkisráðherra frá 2009 til 2013. Hann lýsti slitum þeirra þannig á alþingi 14. apríl 2015:
„Það er misskilningur eða partur af rangfærslum þegar menn hafa verið að halda því fram að það hafi verið vegna þeirra markmiða sem Ísland lagði fram í nefndarálitinu [um sjávarútvegsmál] … að Evrópusambandið skirrtist við að leggja fram sína rýniskýrslu um málið. Það er algjörlega skýrt hvað þar var á ferðinni. Við vorum þá í deilu við Evrópusambandið um makríl og sá maður til dæmis sem var nú verið að reka úr framboði fyrir Front National [Jean-Marie Le Pen] í Frakklandi var í fararbroddi með fleirum innan sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins til þess að koma því svo fyrir að ekki yrði gengið til samningaviðræðna við Ísland um sjávarútvegsmálin fyrr en makríldeilan væri leyst. Það var náttúrlega svívirðilegt og skammarlegt, en þannig reyndu makríllöndin að láta kné fylgja kviði gagnvart okkur. Við féllumst aldrei á neina undangjöf í því.“
Þorgerður Katrín hefur stigið fyrsta formlega skrefið til undangjafar gagnvart „makríllöndunum“ og ESB. Þetta er gert með leynd og kynnt á röngum forsendum.
Framganga utanríkisráðherra er á svig við góða stjórnarhætti og minnkar enn traust í hennar garð innan alþingis og utan.