23.9.2023 8:54

MR64 í Segovía

Um 100 km fyrir norðan Madrid er bærinn Segovía í um 1.000 m hæð yfir sjávarmáli og fyrir norðan hann er háslétta en ekið er um fjallgarð á leiðinni frá Madrid.

Um 100 km fyrir norðan Madrid er bærinn Segovía í um 1.000 m hæð yfir sjávarmáli og fyrir norðan hann er háslétta en ekið er um fjallgarð á leiðinni frá Madrid.

Farið er fram hjá Dal hinna föllnu með risavöxnum krossi sem sést frá hraðbrautinni. Þar var einræðisherrann Franco grafinn 1975 en líkamsleifar hans voru fluttar þaðan árið 2019 og hvílir hann nú við hlið konu sinnar í útjaðri Madrid, skammt frá aðsetri þeirra þar sem áður var veiðihöll Spánarkonunga.

Borgarmúrar Segovía standa óhaggaðir frá fyrstu tíð og allt innan þeirra er á heimsminjaskrá UNESCO.

Það fyrsta sem við MR64 skoðuðum í Segovía föstudaginn 22. september var kastalinn Alcazar. Konungshöll sem á örugglega rætur allt aftur til 1122. Þarna höfðu konungar Kastillíu aðsetur. Ísabella katólska var krýnd drottning Kastillíu á Miklatorgi Segovía og er hennar víða minnst í kastalanum. Hér eru nokkrar kastalamyndir:

IMG_8245IMG_8251Kastalinn í Segovía. Sagt er að Walt Disney hafi notað útlit hans sem eina af fyrirmyndum sínum. 

IMG_8247Hásléttan blasir við út um norður glugga kastalans.

IMG_8261Ísabella drottning var krýnd í Segovía. Hún er hvítklædd fyrir miðri mynd,

IMG_8254Til að draga úr fótkulda var eldstó rennt undir borð.

Vatnsveitustokkurinn (Aqueduct Segovia) er einstakt minnismerki um hugvit og verkkunnáttu Rómverja á fyrstu öld eftir Krist. Með honum fluttu þeir vatn 17 km leið úr fjöllunum í brunna bæjarins, baðhús og heimili. Var stokkurinn notaður allt til ársins 1973. Hér eru nokkrar myndir af stokknum sem var skráður árið 1985 á heimsminjaskrá UNESCO:

IMG_8286IMG_8292IMG_8289Þetta 17 km langa mannvirki reistu Rómverjar á fyrstu öld eftir Krist til að flytja vatn til Segovía, Á neðstu myndinni má sjá hæsta punktinn í 29 m hæð og þar hafa Rómverjar líklega haft höfuð keisara síns en kristir settu þar heilaga guðsmóður.