10.8.2018 11:33

Mr. Bean réttir Boris hjálparhönd

Uppnámið vegna líkingarmáls Boris Johnsons má skoða sem þakkarvert fráhvarf frá stagl-fréttunum í Bretlandi um brexit-vandræðaganginn.

Þegar Boris Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra Breta hóf hann að nýju að rita dálk sinn í The Daily Telegraph og ekki leið á löngu þar til hann kallaði yfir sig vandræði vegna þess. Innan Íhaldsflokksins eru nú til meðferðar „fjölmargar“ kvartanir vegna orða sem Johnson lét falla þegar hann gagnrýndi Dani fyrir að innleiða bann við búrkum. Hann telur algjört bann kynda undir píslarvættis-áráttu og átök milli menningarheima. Til áréttingar notaði hann líkingamál og sagði að fólk í búrkum minnti sig á „póstkassa“ eða „bankaræningja“.

Leiði niðurstaða rannsóknar óháðrar nefndar innan flokksins til þess að refsa beri Johnson, kann hann að verða rekinn tímabundið úr þingflokki íhaldsmanna eða jafnvel sviptur þingmennsku fyrir flokkinn.

Telemmglpict000011705949_trans_nvbqzqnjv4bqpvlberwd9egfpztclimqfyf2a9a6i9ychsjmeadba08Rowan Atkinson = Mr. Bean

Fjölmargir þingmenn Íhaldsflokksins hafa gagnrýnt Brandon Lewis flokksformann fyrir að magna umræðurnar um orðaval Johnsons með því að krefjast afsökunar frá honum.

Þá er Cressida Dick, lögreglustjóri í London, sökuð um „sóun á dýrmætum fjármunum“ eftir að upplýst var um fyrirmæli hennar um rannsókn vegna hugsanlegrar hatursorðræðu Johnsons. Lögreglan taldi ekki um lögbrot að ræða.

Leikarinn Rowan Atkinson, frægur sem Mr. Bean og Blackladder, tók upp hanskann fyrir Johnson í bréfi til The Times þar sem sagði:

„Eftir að hafa notið frelsis alla mína daga til að segja brandara um trúarbrögð finnst mér brandari Boris Johnsons um að fólk í búrkum líkist póstkössum nokkuð góður.

Allir brandarar um trúarbrögð eru særandi þess vegna er tilgangslaust að biðjast afsökunar á þeim. Það á aðeins að biðjast afsökunar vegna vondra brandara. Með vísan til þess er engin afsökun nauðsynleg.“

Telemmglpict000148665066_trans_nvbqzqnjv4bqwzz9520qrn8ryvs0byqffxdyxswuquctgjx18dpo5x4Boris Johnson

Uppnámið vegna líkingarmáls Boris Johnsons má skoða sem þakkarvert fráhvarf frá stagl-fréttunum í Bretlandi um brexit-vandræðaganginn. Undir niðri búa þó jafnan vangavelturnar um hvort Johnson sé hæfur til eða verða forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins. Allt sem hann segir og gerir er skoðað í því ljósi. Hann þótti ekki ríða feitu hrossi frá embætti utanríkisráðherra. Ef til vill nær hann sér á strik að nýju með því að orða hlutina á umdeilanlegan hátt í dálki sínum.