Morðtilraun við Trump
Þegar skothríðin hófst lagðist Trump á bak við ræðupúltið og öryggisverðir mynduðu honum skjól þegar hann reis upp örstuttu síðar, blóðugur í andliti.
Skotið var á Donald Trump, fyrrv. Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðanda repúblikana, á kosningafundi í bænum Butler í vesturhluta Pennsylvaníuríkis kl. 18.15 að staðartíma laugardaginn 13. júlí. Skotið særði forsetann á hægra eyra.
Launmorðinginn lá á húsþaki um 120 m frá ræðupúlti forsetans. Hann notaði hálfsjálfvirkan bandarískan riffil, AR-15, til árásarinnar. Riffillinn, upphaflega frá sjötta áratugnum, er af talsmönnum byssueignar kallaður „þjóðarbyssa Bandaríkjanna“. AR-15 hefur oft komið við sögu í skotárásum í Bandaríkjunum.
Launmorðinginn féll fyrir skotum öryggisvarða (e. Secret Service). Hann var skilríkjalaus en eftir leit í DNA-gagnagrunni sagði bandaríska alríkislögreglan, FBI, að nafn hans væri Thomas Matthew Crooks, 20 ára, frá Bethel Park í norðaustur Pennsylvaníu. Lögregla sagðist ekki vita hvað hefði ráðið árás Cooks.
Í fjölmiðlum sagði að vegna kosninganna í nóvember hefði Cooks skráð sig í Repúblikanaflokkinn. Vegna aldurs hefði hann ekki áður haft kosningarétt.
Donald Trump umkringdur öryggisvörðum eftir skotárásina 13. júlí 2024. (Skjáskot)
Sjónarvottur sagði BBC að hann hefði séð vopnaðan mann skríða á húsþaki utan fundarsvæðisins nokkrum mínútum eftir að Trump hóf að flytja ræðu sína. Hann hefði bent lögreglu á byssumanninn og undrast að Trump héldi áfram að tala. Lögreglan hefði greinilega ekki séð manninn og aðhafðist ekkert.
Einn meðal fundarmanna týndi lífi í árásinni og tveir særðust alvarlega.
Þegar skothríðin hófst lagðist Trump á bak við ræðupúltið og öryggisverðir mynduðu honum skjól þegar hann reis upp örstuttu síðar, blóðugur í andliti.
Nálægur blaðamaður sagði Trump hafa verið rólegan og hann hafi hrópað til eins af aðstoðarmönnum sínum: Náið í skóna mína!
Hann lyfti hnefa til himins og hrópaði: Berjist! og síðan: USA!
Trump var fluttur á sjúkrahús. Hann sagði síðar á samfélagssíðu sinni, Truth Social, að hann hefði verið „skotinn með kúlu sem fór í gegnum efri hluta á hægra eyra mínu“.
Viðbrögð á stjórnmálavettvangi innan og utan Bandaríkjanna voru á einn veg: fordæming á ódæðinu og samúð með Trump.
Á þessu stigi er ekki unnt að segja hver áhrifin verða á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum.
Flokksþing repúblikana hefst í Milwaukee mánudaginn 15. júlí og lýkur fimmtudaginn 18. júlí. Þar verður Donald Trump formlega tilnefndur sem forsetaframbjóðandi flokksins. Borið verður á hann lof og hugrekkið sem hann sýndi við morðtilræðið. Hann sé maður sem ekki missi kjarkinn heldur berjist til sigurs.
Trump hefur ekki enn tilnefnt varaforsetaefni sitt. JD Vance, öldungadeildarþingmaður frá Ohio, er sagður í hópi útvaldra. Hann sagði eftir skotárásina að hún væri ekki „einangrað atvik“. Það hefði verið þungamiðja í kosningabaráttu Bidens að Trump væri valdaþyrstur fasisti sem yrði að stöðva með öllum ráðum. Bein tengsl væru milli þessarar orðræðu og morðtilraunarinnar á Trump. Tónninn hefur verið gefinn.