14.10.2020 9:42

Monthús til marks um hroka

Umræðuhefð útúrsnúninga, hroka og illmælgi hóf innreið sína í borgarstjórn Reykjavíkur með R-listanum. Hugarfarið birtist best í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur.

Í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2020 eru klögumál vegna eineltis í æðstu stjórn borgarinnar ekki einsdæmi. Í febrúar 2020 sá Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sig til dæmis knúna til að rita Vinnueftirlitinu bréf þar sem sagði meðal annars:

„Ég er kjörin fulltrúi og ber samkvæmt lögum að sitja fundi í þeim ráðum sem ég er kjörin til. Forsaga þessa máls er að ég las upp úr héraðsdómi í borgarstjórn þar sem segir í dómsorði að yfirmenn mega ekki koma fram við undirmenn sína eins og dýr í hringleikahúsi. Síðan þá hefur þessi aðili [Helga Björg Ragnarsdóttir skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara] ráðist að mér í fjölmiðlum og reynt að sverta mannorð mitt. Hún ber mig þungum sökum og sakar mig um einelti þrátt fyrir að hafa einungis hitt mig tvisvar eða þrisvar þegar hún setti málið af stað.“

Framganga borgarfulltrúa Pírata og ummæli þeirra um þá sem ekki eru sammála þeim um hnignun miðborgarinnar eða aðförina að einkabílnum eru til marks ömurlega aðferð í umræðum um álitamál. Reynt er að þagga niður í andmælendum með fúkyrðum.

Þegar sótt er að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra beitir hann gjarnan útúrsnúningi. Markviss gagnrýni Bolla Kristinssonar kaupsýslumanns á borgarstjóra er sögð marklaus af því að Bolli sé hluta árs á Spáni.

570fe838fda00ce0f7db13504a6b428aOrkuveituhúsið (mynd af vb.is).

Félagar í klappliði Dags B. eins og Sif Sigmarsdóttir, dálkahöfundur Fréttablaðsins, búsett í London, reyna síðan að réttlæta útúrsnúninga borgarstjórans eins og t.d. mátti lesa laugardaginn 10. október:

„Á daginn kemur að Bolli, einn ákafasti andstæðingur göngugatna sem við Íslendingar eigum, býr eins langt frá göngugötum miðborgarinnar og hugsast getur. Nei, ekki í Grafarvogi – heldur á Spáni.“

Ekkert af þessu breytir miðborginni úr draugaborg en þykir líklega sniðugt hjá einhverjum og þar með sé ekki meira um málið að segja.

Umræðuhefð útúrsnúninga, hroka og illmælgi hóf innreið sína í borgarstjórn Reykjavíkur með R-listanum. Hugarfarið birtist best í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Hér á þessum dagbókarsíðum má kynnast hörðum deilum sem urðu um byggingu hússins á sínum tíma og andmælum mínum gegn því. Í dag (14. október) segir svo Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, ViðskiptaMogganum:

„Það er skoðun mín að ekki hefði átt að byggja höfuðstöðvarnar með þeim hætti sem gert var. Byggingarnar eru í hrópandi andstöðu við hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur, sem er þjónustufyrirtæki sem á að starfa af auðmýkt og þjónustugleði fyrir eigendur sína, sem eru almenningur. En þessar byggingar eru ekki í þeim anda. Yfir þeim er íburður, valdsyfirbragð og jafnvel vottur af hroka. Það er ekki sú mynd sem ég vil að fólk hafi af Orkuveitunni.“

Hefðu þessi orð verið látin falla í borgarstjórn Reykjavíkur á fyrstu árum aldarinnar, byggingartíma monthússins, hefði viðkomandi fengið yfir sig álíka skítkast og andstæðingar meirihlutans núna. Ástæðulaust er að láta fúkyrðaflauminn hrekja sig af réttri leið.