2.9.2025 10:31

Modi brosir í Tianjin

Leiðtogi fjölmennasta lýðræðisríkis heims, Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, heimsótti nú Kína í fyrsta sinn í sjö ár. Hann leiddi Pútin inn í fundarsalinn í Tianjin. 

Athygli beindist mánudaginn 1. september að Tianjin í Kína þar sem forystumenn ríkja í Shanghai Cooperation Organization (SCO), samtökum tíu ríkja í Evrópu og Asíu um öryggismál undir forystu Kínverja og Rússa, hittust.

Gestgjafinn Xi Jinping Kínaforseti tengir fundinn mikill hersýningu sem verður miðvikudaginn 3. september til að minnast þess að 80 ár eru frá sigri Kínverja yfir Japönum í annarri heimsstyrjöldinni. Þótt Kommúnistaflokkur Kína hafi ekki komist til einræðisvalda fyrr en 1949 vill Xi að eigna honum heiðurinn.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti notaði fundinn til að endurtaka lygar sínar og ásakanir um að afstaða Vesturlanda væri kveikjan að stríðinu í Úkraínu.

Fátt sem kemur frá þeim Xi og Pútin er nýmæli fyrir utan að þeir segja ekki satt heldur draga upp þá mynd sem er best fyrir þá á líðandi stundu.

Leiðtogi fjölmennasta lýðræðisríkis heims, Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, heimsótti nú Kína í fyrsta sinn í sjö ár. Hann leiddi Pútin inn í fundarsalinn í Tianjin og þeir heisluðu Xi honum brosandi fyrir ljósmyndarana. Þá ók Modi í 50 mínútur með Pútin í brynvörðum bíl hans til fundarstaðar. „Þeir vildu ræða málin innan okkar eigin veggja,“ sagði talsmaður Pútins.

Unnamed-4.062951Vladimir Pútin og Narendra Modi heilsa Xi Jinping ó Tianjin 1. september 2025. Þeir stóðu í stutta stund þrír fyrir framan myndavélarnar áður en túlkar þeirra komu á vettvang,

Modi fór beint heim til Indlands eftir fundinn í Tianjin. Umræður um SCO-fundinn þar eru opnar og frjálsar enda er Indland lýðræðisríki – í Kína og Rússlandi er ekki sagt annað opinberlega en það sem Xi og Pútin vilja.

Modi sætir gagnrýni fyrir að hafa brosað til Xi og sýnt honum vinsemd þrátt fyrir óleysta deilu um landamæri ríkjanna og minningar um Galwan-átökin 2020, þar sem indverskir hermenn féllu.

Stjórnarandstæðingurinn Jairam Ramesh talaði um „dag smánar í Tanjin“ og sagði „fílinn hneigja sig fyrir drekanum“. Í indverska blaðinu Economic Times er tekið undir þessa gagnrýni og bent á að það verði að gera greinarmun á „snakki og máltíð“. Modi hafi lagt áherslu á „snakkið“ – bros og handabönd – en ekki raunveruleg ágreiningsmál milli ríkjanna og lausn þeirra. Í leiðara er sérstaklega varað við því að misskilja þessi sjónrænu samskipti og telja þau vísbendingu um nýtt upphaf eða frið milli ríkjanna.

Sumum ritstjórum finnst að Modi hafi auðveldað Xi að styrkja stöðu sína sem leiðtogi gegn vestrinu og frjálslyndu lýðræði með nýrri skipan heimsmála. Modi hafi gengið í lið með Xi og Pútín en ekki varið sjálfstæði Indlands.

Á Vesturlöndum er framganga Modis talin sýna andúð hans í garð Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna ofurtolla á Indland.

Hitt er að oft ráða duttlungar einráða valdamanna meiru um gang mála en efnisleg afstaða. Trump vildi láta þakka sér vopnahlé fyrir nokkrum mánuðum eftir blóðug landamæraátök Pakistana og Indverja. Pakistanar báru lof á Trump og töldu hann verðugan friðarverðlaunahafa Nóbels. Indverjar höfnuðu því alfarið að þetta væri Trump að þakka. Modi stóð fast á móti allri ásókn frá Trump í málinu og sleit góðu sambandi við forsetann sem skapaðist á fyrra kjörtímabili hans í Hvíta húsinu. Modi hefði verið talinn niðurlægður hefði hann þakkað Trump vopnahlé við Pakistan. Nú er spurningin hvernig hann bregst við gagnrýninni um að hann hafi sýnt Xi of mikla auðsveipni í Tianjin.