Mistök utanríkisráðherra
Það eru mistök hjá utanríkisráðherra að tengja saman stefnu ríkisins í öryggis- og varnarmálum sem á að móta með það í huga að skapa víðtæka sátt og landvinningastefnu eigin ráðuneytis innan stjórnarráðsins.
Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagði fimmtudaginn 23. október fram tillögu til þingsályktunar um stefnu í öryggis- og varnarmálum sem reist er á tillögum starfshóps fulltrúa þingflokka sem ráðherrann kallaði til samráðs um þessi mikilvægu mál í mars sl. og skilaði áliti 12. september.
Fulltrúi Miðflokksins, Ingibjörg Davíðsdóttir, fyrrverandi sendiherra, sagði sig frá vinnu hópsins 11. júlí 2025. Hún flutti, ásamt þingmönnum Miðflokksins, eigin tillögu til þingsályktunar um öryggis- og varnarmál.
Í ræðu sem Ingibjörg flutti á alþingi fimmtudaginn 22. október sagði hún að þrátt fyrir að erlend samskipti og hernaðarlegar varnir landsins skipti miklu væri það áherslan á innra öryggi þjóðarinnar sem hlyti alltaf að hafa forgang hjá stjórnvöldum. Í skýrslu starfshóps utanríkisráðherra skorti heildstæða sýn, lítið væri lagt upp úr mikilvægi innra öryggis, almannavarna og landamæra. Taldi Ingibjörg hana hvorki heildstæða né raunhæfa. Hún væri „meira til þess fallin að þjóna svokölluðum landvinningum utanríkisráðuneytisins og ráðherra“.
Benti hún á að tillaga sín sneri að því að ríkisstjórnin í heild mótaði sérstaka öryggis- og varnarstefnu sem yrði reist á þeim forsendum sem fram kæmu í þjóðaröryggisstefnu Íslands og yrðu órjúfanlegur hluti af þjóðaröryggisstefnunni. Öryggi og varnir Íslands væru „nefnilega ekki einkamál eins ráðherra“.
Þessi mynd og fyrirsögn birtist í sérhæfðu blaði um varnarmál eftir heimsókn þýska varnarmálaráðherrans hingað19. október.
Samkvæmt 3. gr. varnarmálalaga frá 2008 fer utanríkisráðherra með yfirstjórn varnarmála og ber ábyrgð á mótun og framkvæmd varnar- og öryggisstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Greinin er túlkuð á þann veg að þessi stefna sé mótuð og unnin til hliðar við þjóðaröryggisstefnuna sem var uppfærð árið 2023 án sérstaks kafla varnar- og öryggismál. Við afgreiðslu á þeim tveimur tillögum sem nú liggja fyrir þinginu reynir á afstöðu þingmanna í þessu efni.
Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á orðum Ingibjargar um að þess gæti í áliti starfshóps ráðherrans að auka eigi ítök utanríkisráðuneytisins og ráðherra með „landvinningum“ innan stjórnarráðsins.
Í greinargerð með tillögu utanríkisráðherra sem nú liggur fyrir í 13. liðum má í því sem segir um tvo lokaliðina einmitt sjá hugleiðingar í þá veru að skilgreina þurfi hlut utanríkisráðuneytisins betur og skerpa á heimildum þess. „Vert er að skoða hvort þessum varnartengdu verkefnum [sem nú eru hjá lögreglu og landhelgisgæslu] væri betur fyrir komið hjá einni sérstakri einingu sem heyrði undir utanríkisráðuneytið eða hvort byggja ætti áfram á núverandi skipulagi með skýrari ramma,“ segir undir lok greinargerðarinnar.
Hér er full ástæða fyrir þingmenn að stíga varlega til jarðar og huga vel að hverju skrefi. Nú liggur til afgreiðslu í utanríkismálanefnd frumvarp frá utanríkisráðherra um vegabréfsáritanir. Frumvarpið er ótímabært og meingallað að auki eins og hér er rökstutt .
Það eru mistök hjá utanríkisráðherra að tengja saman stefnu ríkisins í öryggis- og varnarmálum sem á að móta með það í huga að skapa víðtæka sátt og landvinningastefnu eigin ráðuneytis innan stjórnarráðsins. Þar ræður eitthvað annað en umhyggja fyrir öryggi þjóðarinnar.