Misheppnuð verkstjórn
Stóra línan kemur hins vegar frá flokkssystur hennar, Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Komi Kristrún í þingsalinn eru áhrifin eins og snædrottning birtist.
Í dag er 1. júlí. Samkvæmt lögum um starfshætti alþingis á stofnunin að fara í sumarleyfi í dag og hefja störf að nýju 10. ágúst. Ekkert fararsnið er þó á þingmönnum. Um helgina bárust fréttir um að samkomulag um afgreiðslu mála kynni að vera í farvatninu. Í gær, mánudaginn 30. júní, var hljóðið annað og síðdegis þann dag hélt önnur umræða um veiðigjaldsfrumvarpið áfram.
Það mál stendur vel undir löngum umræðum á þingi. Því lengri tíma sem þingmenn taka sér til að reifa málið þeim mun fleiri mistök við gerð þess koma í ljós. Óðagot Viðreisnarráðherranna Hönnu Katrínar Friðriksson og Daða Más Kristóferssonar við að koma málinu fram birtist meðal annars í því að forsendur útreikninga eru ekki réttar. Álögur vegna hækkunar gjaldsins eru meiri en í frumvarpinu sagði.
Þegar slík mistök koma í ljós er skynsamlegasta leiðin á þingi að vísa máli að nýju til nefndar og greiða úr málum og hugsanlegum ágreiningi þar. Er eðlilegt að forseti alþingis beiti sér fyrir slíkri meðferð umdeilds máls. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti beitir sér hins vegar ekki á þann veg heldur setur málið á dagskrá þótt hún hljóti að vita að það tefur afgreiðslu allra annarra þingmála.
Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, formaður atvinnuveganefndar þingsins, hafnar því að taka málið að nýju inn í nefndina. Það er skiljanlegt að meirihlutinn í nefndinni hafi ekki treyst Sigurjóni fyrir að vera framsögumaður álits meirihlutans og stjórnarflokkanna í málinu. Hann notar stóryrði og slagorð til að komast hjá efnislegri umræðu um málið.
Þingræða Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um áhrif frumvarpsins einkenndist af misskilningi og þekkingarleysi. Er líklegt að flokksformaðurinn hafi notið ráðgjafar flokksbróður síns, formanns atvinnuveganefndar. Má því draga í efa að Sigurjón skilji efni frumvarpsins.
Á höfuðborgarsvæðinu dæsa menn og hrista höfuðið yfir því hve þingmenn tala mikið og lengi um veiðigjöldin. Það sýnir hve skilningurinn á hag landsbyggðarinnar er takmarkaður og algjört tillitsleysi er til viðvarana sem birtast þaðan úr öllum áttum.
Þingforseti Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, ber lokaábyrgð á daglegum verkefnum þingmanna í þingsalnum. Stóra línan kemur hins vegar frá flokkssystur hennar, Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Komi Kristrún í þingsalinn eru áhrifin eins og snædrottning birtist, allt gleymist annað en ágæti verkstjórnarinnar sem ætlar að knýja allt sitt fram.
Viðreisnarformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir steig í ræðustól þingsins fyrir helgi og gerði tilraun til að bræða ísinn. Um helgina ræddu þingflokksformenn þó saman. Þorgerður Katrín skrapp hins vegar suður í ofsahitann í Evrópu til að dreifa skattfé um heiminn – samstundis fraus allt á alþingi aftur.
Það er til marks um skilvirkni verkstjórnarinnar að af hennar hálfu var margsinnis áréttað að ný lög um kílómetragjald tækju gildi 1. júlí 2025, það er í dag. Frumvarpið að lögunum liggur enn óafgreitt á þingi.