19.10.2018 10:12

Misheppnuð sókn til varnar Samfylkingu

Allt er sagt munnlegt vegna braggans nema samningurinn við HR.

Augljóst er að allt sem gert hefur verið á vegum borgarstjórnar á ábyrgð borgarstjóra í braggamálinu er á skjön við það sem gera átti. Raunar virðist eina skriflega skjalið um málið vera samningur sem borgarstjóri ritaði undir ásamt rektor Háskólans í Reykjavík um endurgerð braggans í Nauthólsvík í þágu félagslífs og nýsköpunar í skólanum. Fór ekkert leynt við undirritun samningsins. Síðan hafa menn aðeins talað um málið innan borgarkerfisins ef marka frásagnir embættismanna.

Studentabraggi-undirskriftMyndin er tekin við braggann dýra 25. september 2015. Hann átti að verða kominn í notkun vorið 2016 auk nýsköpunar- og rannsóknasteturs HR. Bragginn er veitingastaður í dag fyrir rúmar 400 m. kr. en smíði við setrið er ólokið.

Eftir dúk og disk tókst að knýja borgarlögmann til að skila skjali um barggamálið og þá stígur Hrólfur Jónsson, fyrrv. embættismaður borgarinnar, fram og fullyrðir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi ekkert vitað fjármálasviptingar innan borgarkerfisins vegna braggans. Hrólfur segir með öðrum orðum að borgarstjóri hafi til dæmis ekki haft hugmynd um það sem stóð í fundargerðum innkauparáðs borgarinnar um þetta mál í kringum áramótin 2017/18 og enginn af embættismannahirðinni í ráðhúsinu hafi haft rænu á að benda á þessar athugasemdir. Þá hafi borgarstjóri ekki vitað að mánuðum saman vann borgarlögmaður að málinu.

Umsögn borgarlögmanns og framganga Hrólfs falla síðan saman við tilraunir samfylkingarfólks utan borgarstjórnar til að rétta hlut Samfylkingarinnar og Dags B. í málinu.

Þar reið Helga Vala Helgadóttir þingmaður á vaðið með lúalegum ásökunum í garð Eyþórs Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sem hafði óskað Degi B. góðs bata í umræðum í borgarstjórn um braggamálið en borgarstjóri sat ekki fundinn vegna veikinda. Helga Vala spurði frekjulega á Facebook: „Er ekkert heilagt í pólitísku stríði?“ Hún sakaði Eyþór um að sýna ekki verðugan „vott af sómakennd“.

Af þessu tilefni skrifar thorarinn@frettabladid.is í Fréttablaðið fimmtudaginn 18. október:

„Minna fór fyrir skilningi Helgu Völu á veikindum í hruninu miðju þegar Ingibjörg Sólrún  Gísladóttir glímdi við alvarleg veikindi á meðan þjóðin var í auga stormsins. Þá var Helga Vala formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og gekk vasklega fram á sögulegum fundi flokksins í Þjóðleikhúsinu og krafðist stjórnarslita. Þá var enn móðins að blogga og 29. janúar 2009 skrifaði Helga Vala: „Hún verður ekki mikið skýrari krafan sem nú er send Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Geir H. Haarde.“ Formaður Samfylkingarinnar þjáðist þá vegna æxlis í heila.“