14.4.2024 11:28

Misheppnuð loftárás Írana á Ísrael

Allt frá 7. október 2023 hefur því verið haldið fram að Íranir stæðu að baki aðgerðum Hamas á Gaza með það sameiginlega markmið að gjöreyða Ísrael.

Íranir gerðu árás með um 300 flaugum og drónum á Ísrael aðfaranótt sunnudagsins 14. apríl. Aldrei fyrr hefur sambærileg árás verið gerð á nokkurt ríki. Talsmenn hers Ísraels (IDF) segja að 99% af flaugunum og drónunum hafi verið skotin niður af flugherjum Ísraels, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Jórdaníu. Árásin varð ekki til þess að veikja Ísrael heldur sýndi styrk loftvarnakerfis landsins og hve mikils stuðnings Ísraelar njóta frá bandamönnum sínum sem tóku höndum saman um að verja land þeirra.

Að morgni sunnudagsins fór fólk til vinnu sinnar í Ísrael og fréttamenn sögðu að götulíf bæri þess ekki merki að margir hefðu verið í loftvarnabyrgjum um nóttina eða á verði vegna sírena og viðvarana um yfirvofandi árás. Engar slíkar viðvaranir voru gefnar að morgni sunnudagsins og í Íran sagði talsmaður hersins að árás á Ísrael yrði ekki endurtekin nema Ísraelsher gerði gagnárás.Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur hvatt Ísraela til að halda að sér höndum. Bandarískar leyniþjónustur sendu frá sér viðvaranir fyrir tveimur sólarhringum um að Íranir væru að búa sig undir stórárás á Ísrael. Írönsk stjórnvöld saka Ísraela um að hafa grandað sendiskrifstofu sinni í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, og drepið háttsetta herforingja. Æðstiklerkur Írans sagði að Ísraelar yrðu að gjalda fyrir þetta.

Download-5-Kortið birtist á vefsíðu The Spectat0r.

Íranir sendu um 200 dróna og stýriflaugar í áttina að Ísrael án þess að nokkur næði til skotmarka þar. Fáeinar hraðfleygari skotflaugar (e. ballistic missiles) náðu til skotmarka sinna og ollu þær smávægilegu tjóni á Nevatim-flugherstöðinni. Fréttir berast af því að sjö ára stúlka af bedúin-ættum hafi dáið þegar brot úr flaug lenti á heimili hennar í Negev-eyðimörkinni.

Fréttaskýrendur segja fagnaðarefni að Bandaríkjaher hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni í árás Írana. Að öðrum kosti hefði Biden neyðst til að grípa til gagnaðgerða.

Bandamenn Írana fyrir botni Miðjarðarhafs tóku þátt í árásinni. Uppreisnarher Húta í Jemen sendi dróna í áttina að Ísrael. Liðmenn Hezbollah í Líbanon skutu á stöðvar Ísraela í Gólan-hæðum.

Laugardaginn 13. apríl höfnuðu talsmenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna, skjólstæðingar Írana, tillögum Ísraela um vopnahlé á Gaza. Ísraelar vilja fá til baka gísla sem Hamas-liðar tóku í árás sinni á Ísrael 7. október 2023 en segjast jafnframt ætla berjast við Hamas þar til tekist hafi að eyða herafla þeirra.

Fréttamaður France 24 sagði að það hefði verið „mjög undarlegt“ að sjá íbúa Jerúsalem heima hjá sér eða í öruggum birgjum fylgjast með stöðugum fréttum í sjónvarpi og útvarpi af því sem gerðist í háloftunum yfir borginni. Einna furðulegast hefði þó verið að sjá Al-Aqsa-moskuna í hjarta borgarinnar umkringda ísraelskum herþotum eyðileggja dróna sem annars hefðu grandað moskunni. Múslímar trúa því að Múhammeð spámaður hafi verið fluttur frá heilögu moskunni í Mekka til Al-Aqsa og þaðan hafi hann stigið til himna.

Nú er þess beðið hvort hernaður magnist enn milli Ísraela og Írana. Allt frá 7. október 2023 hefur því verið haldið fram að Íranir stæðu að baki aðgerðum Hamas á Gaza með það sameiginlega markmið að gjöreyða Ísrael.