26.4.2025 14:12

Misheppnuð leigubílalög

Unnið er að breytingu á lögunum en Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir ekkert um stefnu sína í málinu öfugt við það sem er í Finnlandi.

Breytingarnar á þjónustu leigubifreiða eru sýnilegar í ýmsum myndum hér á landi eins og víða annars staðar. Athygli hefur um langt skeið beinst að ástandinu við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli þar sem Isavia ræður ríkjum. Þegar hugað er að þeim sem sinna þar leigubílaakstri beinist athygli að þeirri staðreynd að hús sem Isavia reisti sem afdrep fyrir leigubílstjóra hefur nú breyst í eins konar mosku með bænateppum múslima.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia sat fyrir svörum á Bylgjunni 23. apríl og svaraði fyrir ásakanir í garð fyrirtækisins. Sagði hann Isavia leggja mikla áherslu á að upplifun ferðafólks sem færi um flugstöðina væri sem best „á öllum vígstöðvum“, einnig þar sem leigubílar væru í boði. Frá byrjun maí yrði

„fastur starfsmaður á leigubílasvæðinu við flugstöðina á háannatíma“ til að fylgjast með að fylgt sé reglum sem gilda á svæðinu.

Guðjón sagði að Isavia hefði þurft að loka á aðgang um hundrað leigubílstjóra í skemmri eða lengri tíma á síðustu mánuðum vegna brota á skilmálum Isavia. Það væri því alls ekki rétt að Isavia gripi ekki til aðgerða.

TAXI

Vandræði vegna rýmkunar á heimild til að stunda leigubílaakstur eru ekki bundin við Ísland. Finnska ríkisútvarpið, Yle, birtir í dag (26. apríl) frétt á vefsíðu sinni um að finnska stjórnin undirbúi breytingar á leigubílalögum þar í landi.

Finnar rýmkuðu leigubílareglur sínar árið 2018. Í mars 2025 birtust fréttir um að aðeins í Helsinki hefðu síðan meira en 100 kærur verið lagðar fram um brot leigubílstjóra á hegningarlögum, þar á meðal kynferðisbrot. Kærurnar voru 43 árið 2023 en 11 í fyrra. Lögreglan í Helsinki segir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem sæti kæru séu af erlendu bergi brotnir.

Nú getur hver sem er orðið leigubílstjóri í Finnlandi hafi hann ökuskírteini, læknisvottorð og standist ökupróf. Finnska samgöngustofan kannar hvort viðkomandi hafi brotið refsilög á síðustu fimm árum.

Ökuskírteini leigubílstjóra gildir í fimm ár í Finnlandi og ekki er sérstaklega gert ráð fyrir að leigubílastöðvar fái upplýsingar hljóti bílstjóri á stöðinni refsidóm á þessum fimm árum.

Í drögum að breytingum á finnsku leigubílalögunum er gert ráð fyrir að nýir leigbílstjórar verði að hafa lokið 21 klst. þjálfun. Þeir sem starfa nú þegar við leigubílaakstur skulu fá 7 tíma aukaþjálfun við endurnýjun á ökuskírteini sínu.

Þá á að auðvelda eftirlit með því hver sé eigandi leigubifreiðar, hana skal skrá sem eign og undir eftirliti þess sem hefur leigubílaleyfið. Þá verða gefnar út númeraplötur í sérstökum lit fyrir leigubifreiðar og með því að skoða skráningarnúmer bifreiðarinnar á að vera unnt að afla upplýsinga um hver hefur leigubílaleyfið. Skylt verður að hafa gjaldmæli í öllum bílum, fyrir utan leyfishafann ber bílstjórinn einnig ábyrgð á því að tilkynna greitt verð fyrir hverja ferð. Stefnt er að nýjum lögum snemma árs 2026 eftir ítarlegt samráð við hagaðila um framlagðar tillögur ráðherrans.

Hér tóku ný leigubílalög gildi árið 2002. Nærri tvö þúsund eru nú með leyfi til að aka leigubíl, ýmist eigin bíl eða sem harkarar. Unnið er að breytingu á lögunum en Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir ekkert um stefnu sína öfugt við það sem er í Finnlandi.