Misheppnuð atlaga gegn EES
Atlagan gegn samþykkt þriðja orkupakkans rann úr í sandinn enda var hún frá upphafi reist málefnalega á sandi.
Til að því sé til skila haldið eftir allt sem hér hefur verið sagt á undanförnum mánuðum um þriðja orkupakkann skal þess getið að hann var samþykktur á alþingi mánudaginn 2. september með 46 atkvæðum gegn 13.
Atlagan gegn samþykkt þriðja orkupakkans rann úr í sandinn enda var hún frá upphafi reist málefnalega á sandi. Merkilegasta uppákoman í ferlinu var fundur í Valhöll 30. ágúst 2018 að frumkvæði hverfafélaga sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar var samþykkt tillaga gegn orkupakkanum sem borin var upp af Svani Guðmundssyni og fleirum. Eftir að þingflokkur sjálfstæðismanna ákvað að styðja orkupakkann 21. mars 2019 snerist Svanur til stuðnings við innleiðingu hans.
Nokkrir formenn hverfafélaga héldu áfram baráttu gegn orkupakkanum og hrundu af stað söfnun 5.000 undirskrifta meðal sjálfstæðismanna til að knýja fram atkvæðagreiðslu um málið meðal flokksmanna. Þeim tókst ekki að ná markmiði sínu fyrir atkvæðagreiðsluna á þingi en segjast ætla að halda söfnun undirskrifta áfram. Komi til þess að efnt verði til þessarar atkvæðagreiðslu verður hún að sjálfsögðu ekki afturvirk.
Talið er að um 100 manns hafi komið á Austurvöll til að mótmæla að morgni mánudags 2. september þegar alþingismenn greiddu atkvæði um þriðja orkupakkann. Myndina tók Kristín Sigurðardóttir og birtist hún á ruv.is
Þá var einnig á frumstigi átaka um þetta mál á vettvangi Sjálfstæðisflokksins rætt um að stofna sérstakt félag innan flokksins til að berjast gegn orkupakkanum í nafni fullveldis. Ekkert slíkt félag hefur verið stofnað.
Hér hefur oftar en einu sinni verið sagt, þó ekki í umræðunum um þriðja orkupakkann, að nauðsynlegt sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta í eigin barm vegna félagsstarfsins í Reykjavík. Þróun í fylgi flokksins í borginni bendi ekki til þess að félög hans þar séu í nánum tengslum við grasrótina þegar litið sé til kjósenda. Barátta nokkurra forystumanna hverfafélaga gegn þriðja orkupakkanum staðfesta þessa skoðun.
Með hliðsjón af klassískri stefnu Sjálfstæðisflokksins og baráttu hans fyrir að opna aðgang Íslendinga að alþjóðamörkuðum, losna við höft á gjaldeyri og verðlagi og auka svigrúm og réttindi borgaranna á öllum sviðum er hreint öfugmæli að grafa undan aðild Íslendinga að EES eins og gert hefur verið með áróðrinum gegn þriðja orkupakkanum.