19.11.2020 10:17

Misheppnuð árás á Sjálfstæðisflokkinn

Gagnrýni Bolla á fjármálastjórn sjálfstæðismanna missir algjörlega marks vegna þess að hann getur ekki viðurkennt sterka stöðu ríkissjóðs og þjóðarbúsins.

Bolli Héðinsson hagfræðingur skipaði sér í flokk þeirra sem vildu Ísland inn í Evrópusambandið, ESB. Ömurlegri pólitískur leiðangur hefur ekki verið farinn á þessari öld og þótt leitað yrði allt til þess að Ísland varð lýðveldi árið 1944.. Sumir sem samþykktu aðildina gerðu það einungis í von um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Þeim var sama um þjóðarhag.

Að loknum fjórum mögrum árum undir forystu ESB-ríkisstjórnarinnar fengu flokkarnir sem að henni stóðu, Samfylking og VG, hrikalega útreið í kosningum og að völdum settist ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vorið 2013.

Bolli hefur harma að hefna gagnvart Sjálfstæðisflokknum eins og birtist í grein í Fréttablaðinu í dag (19. nóvember). Þar lætur hann eins og innbyggður kerfisvandi í ýmsum málaflokkum sé verk sjálfstæðismanna þótt annarra flokka menn rísi jafnan upp með illmælgi hreyfi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tillögum til breytinga.

Þetta á ekki síst við um útlendingamálin. Bolli virðist telja það hafa strandað á sjálfstæðismönnum að einfalda útlendingalöggjöfina eða gera hana skilvirkari. Þar eru önnur öfl að verki sem Bolli neitar að sjá.

Þegar hann ræðir fjármál ríkisins sem hafa lotið stjórn formanns Sjálfstæðisflokksins nær allan þann tíma sem Bolli skoðar lætur hann algjörlega undir höfuð leggjast að nefna þá staðreynd að traustur fjárhagur ríkisins og lánshæfi þess út á við auðveldar allar aðgerðir á örlagatímum COVID-19-faraldursins.

IMG_2536Það er meiri birta yfir Snæfellsjökli en grein Bolla Héðinssonar.

Þegar 15 dómarar voru skipaðir í landsrétt árið 2017 var stuðst við óhlutdrægasta ráðningarferli sem hannað hafði verið hér. Skapa átti jafnvægi á milli þriggja arma ríkisvaldsins: dómsvalds, löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Farið var eftir leikreglunum en ferlið var misheppnað og dýrkeypt.

Hér var ekki við Sjálfstæðisflokkinn að sakast þótt Bolli Héðinsson telji það. Ferlið reyndist stórgallað þegar á reyndi. Engin dómnefnd um dómaraefni vill standa að verki eins og gert var með excel-skjal-aðferðinni 2017. Sannaðist það til dæmis við skipan tveggja kvenna í hæstarétt nú í vikunni.

Þá sakar Bolli sjálfstæðismenn um að gæta sérhagsmuna við stjórn ráðuneytis ferðamála árin 2013 til 2020. Má helst skilja orð hans á þann veg að hann vilji leggja komugjöld á ferðamenn og sé ósáttur þar sem það hafi ekki verið gert. Er meirihlutafylgi við slíka gjaldtöku á alþingi og hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið gegn henni?

Gagnrýni Bolla á fjármálastjórn sjálfstæðismanna missir algjörlega marks vegna þess að hann getur ekki viðurkennt sterka stöðu ríkissjóðs og þjóðarbúsins þegar heimsfaraldurinn krafðist þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til á þessu ári við fjármálastjórnina og borið hafa góðan árangur.

Innan við ár er til kosninga. Grein Bolla Héðinssonar er dæmigerður óhróður um Sjálfstæðisflokkinn. Hann er innstæðulaus og mótast af illvilja.