14.7.2025 10:01

Misheppnað vorþing

Á fyrsta þingi Kristrúnar sem forsætisráðherra verða samþykkt helmingi færri frumvörp en á fyrsta þinginu sem Katrín Jakobsdóttir leiddi sem forsætisráðherra.

Kristrún Frostadóttir segist hafa forystu í verkstjórn og afbakar þannig gamalt og gott orð. Í hennar orðabók þýðir það að stjórnin komi meiru í verk, sé skilvirkari en aðrar ríkisstjórnir, að minnsta kosti þær tvær síðustu sem sátu á undan hennar stjórn.

Samstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hófst 30. nóvember 2017 eftir kosningar í október. Þing sat að störfum 14. til 29. desember 2017 til að afgreiða fjárlög ársins 2018. Síðan sat þingið að störfum frá 22. janúar til 13. júní 2018. Síðar, 17. og 18. júlí, var efnt til hátíðarþingfundar á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins. Þingfundadagar voru alls 64.

Af 160 frumvörpum sem voru lögð fyrir þingið urðu alls 84 að lögum, 75 voru óútrædd og einu var vísað til ríkisstjórnarinnar. Af 86 þingsályktunartillögum voru 32 samþykktar.

Screenshot-2025-07-14-at-09.58.06Foraíðufrétt Morgunblaðsins 14. júlí 2025.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur var mynduð 21. desember 2024. Þing kom þó ekki saman fyrr en 4. febrúar 2025 og því lýkur í dag, 14. júli, í ágreiningi þótt þingflokksformenn hafi fallist á tillögu þingforseta um að binda enda á þinghaldið. Forsetinn eyðilagði í raun allan starfsanda á þinginu föstudaginn 11. júlí með því að binda með valdi enda á umræður um veiðigjaldsfrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í vikum talið hefur þingið núna setið lengur en vorþingið hjá nýmynduðu ríkisstjórninni vorið 2018. Þar að auki hefur verkstjórn leitt störf þingsins og við upphaf þess var flaggað þingmálaskrá með alls kyns skrumi í anda alls þess sem einkennir umgjörð forsætisráðherrans. Kristrún boðaði að nú yrðu hendur látnar standa fram úr ermum og gengið til verks af þeim krafti sem áður hefði ekki sést.

Hver er afraksturinn þegar þinginu er slitið? Á fyrsta þingi Kristrúnar sem forsætisráðherra verða samþykkt helmingi færri frumvörp en á fyrsta þinginu sem Katrín Jakobsdóttir leiddi sem forsætisráðherra.

Á þetta er bent hér til að setja afsakanir formanns þingflokks Samfylkingarinnar og annarra skrumara í þjónustu flokksins í rétt ljós. Nú er sagt að þetta sé bara góður árangur miðað við að þetta sé fyrsta þing nýrrar stjórnar auk þess sem hún hafi ekki haft heilan þingvetur fyrir mál sín. Allt eru þetta afsakanir út í loftið, sagðar af vanþekkingu eða í blekkingarskyni. Líka í trausti þess að mistækir fréttamenn láti gott heita.

Yfirlæti og ofsi kemur stjórnmálamönnum fljótt í koll. Þetta sannaðist við þinglokin núna þegar litið er á stöðu Flokks fólksins. Sigurjón Þórðarson, þingmaður flokksins og helsti handlangari Viðreisnar við að tryggja veiðigjaldsmálinu hraðferð í gegnum atvinnuveganefnd, er skilinn eftir eins og þorskur á þurru landi. Hann sagði greinilega Erni Pálssyni, forstjóra strandveiðimanna, að strandveiðifrumvarp færi umræðulaust í gegnum þingið. Örn flutti útvarpshlustendum boðskapinn í hannaðri RÚV-frétt. Strandveiðarnar stöðvast. Ragnar Þór Ingólfsson samdi fyrir Flokk fólksins um afgreiðslu mála, hann gerði Sigurjón marklausan og Inga er mjög glöð og sátt.