12.7.2021 9:55

Misbeiting hælisleitenda

Aðferðin sýnir að óprúttnir stjórnmálamenn sem fara með völd sín að hætti smyglara og glæpamanna hika ekki við að nýta sér neyð hælisleitenda.

Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, hefur gripið til þess ráðs gagnvart nágrönnum sínum í Litháen að senda þangað farand- og flóttafólk frá Mið-Austurlöndum og Afríku í hefndarskyni fyrir að Litháar hafa skotið skjólshúsi yfir Svetlönu Tsikhanouskaju sem flúði frá Hvíta-Rússlandi í fyrra eftir að hafa tekist á við Lukasjenko í forsetakosningunum 9. ágúst 2020.

Samhliða því sem hælisleitendum frá fjarlægum Austurlöndum og Afríku fjölgar í Litháen herðir hvítrússneski ríkissaksóknarinn á kröfum um að Svetlanta Tsikhanouskaja verði framseld frá Litháen til Hvíta-Rússlands. Hún er ekki sú eina sem ríkissaksóknarinn vill fá framselda því að hann segir hóp landflótta glæpamanna í Litháen sem draga verði fyrir dómara í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. „Sök“ þessa fólks er að vilja ekki beygja sig undir ofríki og ofbeldi Lukasjenkos.

Með því að greiða fyrir för hælisleitenda að landamærum Litháens grípur Lukasjenko til sambærilegra aðgerða og Vladimir Pútín Rússlandsforseti árið 2015 þegar hann lét fljúga fólki frá fjarlægum löndum og senda það að landamærum Noregs og Finnlands í hælisleit. Með skjótum og markvissum viðbrögðum var þessi tilraun til að brjóta upp samfélagsgerðina í fámennum landamærahéruðum norrænu landanna tveggja stöðvuð.

Aðferðin sýnir að óprúttnir stjórnmálamenn sem fara með völd sín að hætti smyglara og glæpamanna hika ekki við að nýta sér neyð almennra borgara sem ekkert þekkja til aðstæðna og beita þeim sem pólitísku vopni. Vegna stöðu valdhafanna gerist þetta fyrir opnum tjöldum í löndum þeirra.

Almennt leitast smyglarar og glæpamenn sem hafa fé af hælisleitendum við að fara leynt en jafnframt nýta sér opin, lýðræðisleg samfélög til að afla sér stuðningsmanna innan þeirra. Hlutverk stuðningsmannanna er að blekkja glámskyggna fjölmiðlamenn og almannasamtök til að tala máli skjólstæðinganna og fordæma yfirvöld og stofnanir viðkomandi landa sem hafa það hlutverk að gæta laga og réttar.

260805Litháar ætla að loka  550 km löngum landamærunum gagnvart Rússlandi með gadda- og vírneti.

Litlar fréttir fara af þeim sem tala máli Lukasjenkos og skjólstæðinga hans í Litháen. Þvert á móti bregðast stjórnvöld þar við ráðabruggi hans af hörku og hafa meðal annars hafist handa við að girða með þéttriðnu gadda- og vírneti 550 km löng landamæri sín gagnvart Hvíta-Rússlandi. Áður (2. júlí) hafði ríkisstjórn Litháens lýst yfir neyðarástandi í landinu eftir að ljóst var að straumur hælisleitenda þangað hafði 11 faldast frá 2020.

Þá hafa Eistlendingar gripið til þess að setja upp gaddavírsgirðingu á hluta landamæra Eistlands og Rússlands. Í fyrsta áfanga er um 20,5 km langa girðingu að ræða. Sameiginleg landamæri Eistlands og Rússlands eru alls 338 km, þar af eru 135 km á landi, 126 km í vötnum og 176 km við ár.

Þótt nágrannaríki einræðis- og ofríkisstjórna grípi til hertra landamæraaðgerða gegn skipulagðri árás með hælisleitendur að vopni gagnast lokun landamæra yfir í frelsið einnig einræðisherrunum sem verða að stöðva flótta eigin borgara. Nú láta þeir hins vegar aðra reisa múrana fyrir sig.