Minnislykill í óskilum
Nú þegar málin virðast hafa snúist móttakandanum í óhag vill hann kasta ábyrgðinni til baka og benda á þá sem afrituðu gögn á lykilinn og afhentu hann.
Í um það bil 12 ár hefur fréttamaðurinn Helgi Seljan haft aðgang að minnislykli sem geymir viðkvæm skjöl og upplýsingar um fjármál einstaklinga í samskiptum við banka. Þessi lykill varð fréttamönnum að verkfæri við umfjöllun og greiningu, til dæmis um stjórnmálamenn í aðdraganda þingkosninga. Þeir settu upplýsingar úr gögnunum í ákveðið ljós til að styrkja málflutning sinn í því skyni að hafa bein áhrif á stjórnmálaumræður. Það var því ekki tilviljun að fréttir sem studdust við efni úr þessum lykli höfðu áhrif á almenningsálit og umræðu á mikilvægum tímapunktum í stjórnmálabaráttunni.
Nú, tólf árum síðar, hefur staðan snúist við. Sá sem áður hafði í höndum lykil að gögnum annarra vill nú beina kastljósinu að þeim sem komu honum sjálfum í þessa stöðu með því að afhenda honum minnislykilinn. Í stað þess að beina athyglinni að efni lykilsins eða því hvernig hann nýttist í fréttaflutningi vill Helgi Seljan nú, meðal annars með viðræðum við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara og aðgangi að fréttaþáttum ríkissjónvarpsins, segja þá sögu að aðrir hafi brugðist trúnaði með því að afhenda gögn sem aðrir hafa síðan nýtt til að smíða fréttir og valda öðrum vanda.
Fréttir sem Morgunblaðið hefur birt í dag (1. september) og laugardaginn 30. ágúst sýna að um er að ræða tvíþætt mál. Annars vegar hlutverk blaðamannsins sem nýtir upplýsingar til að fjalla um pólitík og beita áhrifum sínum í opinberri umræðu. Hins vegar sú staðreynd að upplýsingarnar komu ekki úr lausu lofti heldur frá einhverjum sem tók meðvitaða ákvörðun um að afhenda þriðja aðila lykilinn. Lögregluembættið á Suðurlandi rannsakar nú þá hlið málsins.
Þegar viðkvæm skjöl voru notuð til að setja aðra aðila í óþægilega stöðu fyrir kosningar var ekki fjallað um ábyrgð þess sem miðlaði gögnunum eða móttakanda þeirra. Nú þegar málin virðast hafa snúist móttakandanum í óhag vill hann kasta ábyrgðinni til baka og benda á þá sem afrituðu gögn á lykilinn og afhentu hann.
Þarna birtist ákveðin tvöfeldni: (1) þegar gögnin nýtast til að koma höggi á aðra er birting á efninu réttlætt með vísan til almannahagsmuna meðal annars í frægu lögbannsmáli, (2) þegar gögnin skapa þeim sem nýtt hafa þau með birtingu frétta einhvers konar vandræði er saknæmur uppruni gagnanna gerður að meginatriði.
Þetta sýnir vel hvernig upplýsingaflæði og vald tengjast í stjórnmálum og fjölmiðlum. Þegar minnislykillinn var nýttur markvisst í meira en áratug var hann til marks um vald í opinberri umræðu. Nú er aðstaðan af einhverjum ástæðum önnur og héraðssaksóknari og fréttamaður sjá sér sameiginlegan hag af því að lögregla rannsaki uppruna gagnanna.
Þetta mál snýst ekki aðeins um gögn eða minnislykil, heldur einnig um ábyrgð, siðferði og stöðu fjölmiðla í lýðræðislegri umræðu. Fréttastofa ríkisútvarpsins safnar að sér vandræðamálum á gráu svæði fréttaflutnings og upplýsingaóreiðu án þess að stjórnendur stofnunarinnar reki af henni slyðruorðið.