6.8.2020 10:15

Minningar frá Beirút

Margt minnisstætt gerðist í Líbanon-ferðinni. Kynnin af François Jabre, aðalræðismanni Íslands, eru ógleymanleg og heimsókn í fallegt heimili hans í hæðunum fyrir norðan Beirút.

Í febrúar 1981 dvöldumst við Kjartan Gunnarsson, þáv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í sjö daga í Líbanon með aðstoð friðargæslusveita norska hersins þar sem Arnór Sigurjónsson, þáv. lautinant, var í norsku herdeildinni í Suður-Líbanon. Þetta var ævintýraleg ferð eins og ég lýsti í nokkrum greinum í Morgunblaðinu sem eru endurbirtar í bók minni Í hita kalda stríðsins frá 2001. Minningar um ferðina vakna þegar fréttir berast um hrikalegar sprengingar í Beirút nú 4. ágúst og hörmungarnar sem þeim fylgja.

Þá, fyrir 40 árum, var borgin klofin vegna átaka og var ekið um „grænu línuna“ milli borgarhluta. Við lentum að kvöldi dags og gistum á hóteli skammt frá höfninni. Um fyrsta daginn sagði ég:

„Nú sáum við Beirút fyrst í dagsbirtu. Borgin stendur á tanga, sem teygir sig út í Miðjarðarhafið og í norður og suður af henni sést strandlengjan en fyrir austan borgina taka við fjöllin og þar ber hæst fjallið Líbanon – fjallið hvíta. Við sáum snævi þakta bungu þess í fjarska. Líbanon er lítið land, strandlengjan um 200 km frá Sýrlandi í norðri til Ísraels í suðri og inn að landamærum Sýrlands í austri er lengst um 100 km.“°

Að flatarmáli er Líbanon aðeins 10.400 ferkílómetrar, tíundi hluti Íslands, íbúar eru um 6 milljónir. Vesturland, frá Gilsfirði og Holtavörðuheiði í norðri og norðaustri að Hvalfirði í suðri, það er Dalirnir, Snæfellsnes, Mýrar og Borgarfjörður auk Hvalfjarðar að Botnsdal, spannar 9554 ferkílómetra.

Við getum ekki gert okkur í hugarlund að 6 milljónir manna byggju á þessu landsvæði hér. Því síður höfum við hugmyndaflug til að setja okkur í spor þessara milljóna manna í því spennu- og hættuástandi sem hefur í marga áratugi einkennt þjóðlífið í Líbanon, háspennupott alls þess sem gerist í Mið-Austurlöndum. Nú eftir sprengjuna miklu bætist eyðileggingin vegna hennar ofan á allt annað.

Eeq6F0oU0AEQGspÞessi mynd birtist á netinu og er blaðamaðurinn Jenan Moussa sagður hafa tekið hana., Hún sýnir sprengjugýginn við höfnina í Beirút.

Margt minnisstætt gerðist í Líbanon-ferðinni. Kynnin af François Jabre, aðalræðismanni Íslands, eru ógleymanleg og heimsókn í fallegt heimili hans í hæðunum fyrir norðan Beirút. Hann andaðist í hárri elli á aðfangadag 2014 og var Carla, dóttir hans, tilnefnd ræðismaður eftir hans dag. Er Ísland einstaklega vel kynnt meðal áhrifamanna og allra stjórnarerindreka í Líbanon. Er ekki að efa að fyrir tilstilli ræðismannsins verður allri íslenskri neyðaraðstoð fylgt eftir svo að hún nýtist sem best.

Í ferðasögunni frá Líbanon segi ég frá því að í átökum hafi sprengikúla eyðilagt hluta íbúðarhúss Jabres. Þá segir:

„Viðgerð er nú að fullu lokið og er húsið hið fegursta, sem ég hef komið í, bæði vegna legu sinnar á hæðarbrún yfir Beirút og Miðjarðarhafinu og vegna þeirra fögru dýrgripa, sem heimilið prýða. Árið 1974, þegar minnst var 30 ára afmælis íslenska lýðveldisins og 11 alda búsetu hér á landi, bauð François Jabre um 1700 manns til móttöku á heimili sínu. Til veislunnar komu 1130 manns og var mikið um dýrðir í hinu fegursta veðri.“

Minningin frá ferðinni um stríðshrjáða landið Líbanon var þrátt fyrir allt góð og nú hvílir hugurinn enn þar vegna hörmungarfrétta. Megi vel úr rætast.