30.6.2022 10:26

Minkaskýrsla veldur skjálfta

Minkamálið er sagt mesta pólitíska hneykslið í síðari tíma sögu Danmerkur og með skýrslunni í dag hefst nýr kafli í því.

Í dag (30. júní) lagði rannsóknarnefnd í danska minkamálinu fram, 1.649 bls. í níu bindum. Talið er að málið verði mjög erfitt fyrir Mette Frederiksen forsætisráðherra. Spurning snýst um hver verði afleiðing þess fyrir ráðherra að hafa gefið fyrirmæli um að drepa öll dýr í dönskum minkabúum án lagaheimildar.

Atburðarásin hófst á minkabúi á Norður-Jótlandi í júní 2020 þar sem kórónusmit leiddi til aðgerða af hálfu yfirvalda sem leiddu til þess að 15 milljónir minka voru aflífaðir.

Minkamálið er sagt mesta pólitíska hneykslið í síðari tíma sögu Danmerkur og með skýrslunni í dag hefst nýr kafli í því.

Það ræðst af hörkunni pólitísku deilunum sem nú hefjast hvað gerist næst í málinu, hvort þær leiða til þess að landsdómur (d. rigsret) verði kallaður saman eða efnt til þingkosninga.

FWfSZQbXoAAgl1PDanska minkaskýrslan í 9. bindum.

Kórónuveiran (COVID-19-faraldurinn) fór eins og eldur um sinu milli minkabúa á Norður-Jótlandi í september og október 2020. Þá var upplýst að veiran bærist frá minkum til manna. Statens Serum Institut sendi 3. nóvember 2020 frá sér tilkynningu um að vegna COVID-19 stafaði heilsu almennings „veruleg hætta“ af minkarækt. Að kvöldi sama dags ákvað ríkisstjórnin að aflífa skyldi alla minka, ekki aðeins smituð dýr.

Ákvörðunin var tekin í samræmingarnefnd ríkisstjórnarinnar undir stjórn Mette Frederiksen. Fund nefndarinnar sátu nokkrir helstu ráðherrar, ráðuneytisstjórar þeirra og sérlegir ráðgjafar.

Minkanefndin, rannsóknarnefndin um minkamálið, hefur kannað lögfræðilega hlið málsins, ekki hvort það hafi verið réttmætt vegna sóttvarna að aflífa minkana. Ferill málsins hefur verið greindur og litið til þess sérstaklega hvenær og hvort ráðherrar, þar á meðal forsætisráðherrann, hafi gert sér grein fyrir hvort heimildir skorti til aðgerða og brugðist við þeirri vitneskju á einhvern hátt. Þá hefur minkanefndin einnig lagt mat á hlut embættismanna og hvort ástæða sé að kalla þá til ábyrgðar vegna mistaka. Nefndin hafði ekki það verkefni að fella dóma eða gera tillögur hugsanleg viðurlög vegna embættismanna. Þingið eitt getur tekið á málum ráðherra og nefndin hafði ekki umboð til að grípa fram fyrir hendur þess með mati eða tillögum.

Hér skal grunnur danska minkamálsins ekki rakinn frekar. Vegna þess hve margt er líkt með íslenskum og dönskum stjórnskipunarrétti hljóta íslenskir stjórnlagafræðingar og aðrir að fylgjast af áhuga með því.

Nýlega var fyrrverandi ráðherra, Inger Støjberg, sakfelld í danska landsdóminum. Hún hefur tekið út refsingu sína og stofnað nýjan stjórnmálaflokk sem virðist ætla að ganga að Danska þjóðarflokknum dauðum. Að vera kallaður til ábyrgðar og hljóta dóm í landsdómi jafngildir alls ekki pólitískum dauðadómi í Danmörku.