17.10.2019 9:49

Mikilvægur stuðningur við EES í norsku verkalýðshreyfingunni

Hart var tekist á um EES á landsþingi 150.000 manna norsks verkalýðssambands. EES-andstæðingar urðu undir í átökunum.

Fellesforbundet í Noregi er samstarfsvettvangur 150.000 launþega úr fjölmörgum atvinnugreinum. Það er mikið afl innan norska alþýðusambandsins og þar með einnig innan norska Verkamannaflokksins. Samtökin efndu til landsþings fyrr í vikunni og var þar meðal annars tekist á um EES-aðildina. Óánægja er í mörgum atvinnugreinum vegna félagslegs undirboðs og lægri launa til erlendra starfsmanna og hefur henni verið beint gegn aðild Noregs að EES.

B55939f3-dd03-4341-b50a-a8d3431e0ce0Innilegur fögnuður norskra verkalýðsleiðtoga vegna jákvæðrar afstöðu til EES.

Greidd voru atkvæði um EES-málið á landsþinginu miðvikudaginn 16. október. Þeir urðu undir sem vildu stefna að úrsögn úr EES og segir í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, að þungu fargi hafi verið létt af Jørn Eggum, formanni Fellesforbundet, og Jonas Gahr Støre, formanni Verkamannaflokksins, eftir að úrslit í atkvæðagreiðslunni voru kynnt.

Á landsþinginu var ályktað á þann veg að ríkisstjórnin láti skoða hvaða aðrir kostir séu í stöðunni en aðild að EES. Í Noregi halda samtökin Nei til EU fram málstað tvíhliða samnings við ESB í stað EES. Sósíalíski vinstriflokkurinn (SV) og Miðflokkurinn (SP) leggjast á sveif með EES-andstæðingum. Aðildarumsókn að ESB yrði líklegasta niðurstaðan í Noregi yrði EES-aðild hafnað. Norðmenn hafa tvisvar sinnum fellt aðildarumsókn að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verkamannaflokkurinn hefur EES-aðild á stefnuskrá sinni. Hefði Fellesforbundet ályktað gegn henni og þar með sótt með þá stefnu inn á vettvang alþýðusambandsins hefði það skapað flokknum mikla erfiðleika. Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, flutti ræðu á þingi Fellesforbundet þriðjudaginn 15. október og varaði menn við að vilja Noreg út úr EES. Í samtali við NRK sagði flokksformaðurinn að hann væri mjög sáttur við niðurstöðu landsþingsins. „Þeir höfnuðu að segja nei við EES,“ sagði hann.

9466f84a-efdd-4f75-9f00-b4c3391f07efSvona sér norski teiknarinn átakalínurnar innan norsku verkalýðshreyfingarinnar vegna EES (EØS).

Í atkvæðagreiðslu studdu 300 þingfulltrúar tillöguna um ítarlega úttekt á öðrum kosti en EES en 218 vildu taka stefnuna út úr EES. Jørn Eggum, formaður Fellesforbundet, hafnaði eindregið tillögunni um úrsögn. Það yrði algjör óvissuferð. Menn yrðu að vita hvert slík ályktun leiddi þá áður en hún yrði samþykkt. Það vissi í raun enginn. Þegar greidd voru atkvæði um EES-aðildina á landsþingi Fellesforbundet fyrir fjórum árum var hún studd með aðeins þriggja atkvæða mun.

Hans Christian Gabrielsen, forseti norska alþýðusambandsins, er andvígur úrsögn Noregs úr EES. Hann sat landsþing Fellesforbundets og fagnaði niðurstöðunni í EES-málinu.

Enginn norsku stjórnmálaflokkanna hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni. Allir flokkarnir fyrir utan SV og SP styðja EES-aðild. Eftir að hér kom út skýrsla starfshóps um EES-samstarfið var lagt til í norskum fjölmiðli að formaður SP, Trygve Slagsvold Vedum, hefði hana á náttborðinu hjá sér .