26.12.2025 10:46

Mikilmennska Trumps

Í Bandaríkjunum hefur verið venja að kenna stofnanir, mannvirki og skip við forseta að þeim látnum og síst af öllu að þeir standi sjálfir að slíku sér til upphafningar. 

Við fengum að kynnast þegar sjónvarpið sýndi þátt frá tónleikum Laufeyjar í Bandaríkjunum að kvöldi jóladags, hve mikillar hylli hún nýtur og hve öll framganga hennar er einlæg, hógvær og snilldarleg á sviðinu.

Hún hefur oftar en einu sinni komið fram á jazz-tónleikum á sviði Kennedy Centers í Washington. Bandaríska þingið samþykkti lög sem Dwight D. Eiswenhower Bandaríkjaforseti ritaði undir 1958 um að reisa skyldi þjóðmenningarmiðstöð í Washington. Árið 1962 hleyptu John F. Kennedy forseti og Jacqueline kona hans af stað 30 milljón dollara fjáröflunarherferð til að fjármagna byggingu menningarhússins. Tveimur mánuðum eftir að Kennedy var myrtur í nóvember 1963 ritaði Lyndon B. Johnson arftaki hans undir lög, 23. janúar 1964, um að miðstöðin skyldi kennd við Kennedy. Í rúm 60 ár og þar til núna hefur hún borið nafnið John F. Kennedy Center for the Performing Arts og byggingin borið nafnið Kennedy Center.

Jasstónleikum sem áttu að vera á aðfangadag í Kennedy Center var aflýst eftir að nafni Trumps var bætt við miðstöðina og fest á tónleika- og menningarhúsið.

Chuck Redd, jasstónlistarmaður, sagði að hann hefði aflýst árlegum tónleikum sínum eftir að nafn Trumps forseta var fest á framhlið byggingarinnar í Washington. Redd, sem hefur verið gestgjafi tónleikanna í næstum tvo áratugi, sagði að hann hefði ákveðið föstudaginn 19. desember að aflýsa sýningunni eftir að hafa frétt að verið væri að breyta nafninu á byggingunni í Washington.

Í liðinni viku tilkynnti stjórn miðstöðvarinnar, undir formennsku Trumps, að Kennedy Center yrði endurnefnt Trump Kennedy Center. Fyrr á þessu ári rak ríkisstjórn Trumps stjórnarmenn sem skipaðir voru af Joe Biden forseta, þar á meðal formann hennar, David M. Rubenstein, og skipaði fólk sem Trump hafði handvalið.

Screenshot-2025-12-26-at-09.49.13Kennedy Center fær nýtt nafn með Trump.

Nafn Trumps var fest á framhlið byggingarinnar 19. desember og vefsíða miðstöðvarinnar hefur verið uppfærð til að endurspegla nýja nafnið. Joyce Beatty, þingmaður Demókrataflokksins frá Ohio, lögsótti Trump á mánudag. Hann lýsti þeirri skoðun að Bandaríkjaþing þyrfti samþykkja nýtt nafn á miðstöðinni og byggingunni. Þá hefur Kennedy-fjölskyldan lýst andstöðu sinni við nýja nafnið.

Ákvörðun Trumps um að endurnefnda Kennedy Center og kalla miðstöðina Trump Kennedy Center er skýrð sem liður í áformum hans um að uppræta „vók“-menningu hjá alríkisstofnunum. Þá er bent á að hann hafi ákveðið að stofnun á vegum utanríkisráðuneytisins, Institute of Peace, skuli framvegis heita Trump Institute of Peace. Á dögunum tilkynnti Trump öllum að óvörum að hafin yrði smíði Trump-class herskipa fyrir bandaríska flotann og yrðu þau allt að 30.

Í Bandaríkjunum hefur verið venja að kenna stofnanir, mannvirki og skip við forseta að þeim látnum og síst af öllu að þeir standi sjálfir að slíku sér til upphafningar. Áform Trumps um að leggja Grænland undir Bandaríkin hafa verið sett í þetta samhengi. Hann vilji að sín verði minnst í sögunni sem forsetans sem stækkaði Bandaríkin um 2,1 milljón ferkílómetra. Þess má einnig minnast hann ásælist ráð yfir Kananda.