20.8.2019 8:39

Miðflokkurinn missir haldreipi

Allar tilraunir af hálfu andstæðinga þriðja orkupakkans til að tala niður fyrirvara ríkisstjórnarinnar þjóna þeim tilgangi einum að veikja varnir Íslendinga í málinu og ýta undir tortryggni.

Utanríkismálanefnd alþingis hefur nú efnt til tveggja funda um þriðja orkupakkamálið. Afgreiðslu þess var frestað á alþingi í júní svo að miðflokksmenn kæmust frá málþófinu. Mátti ætla að forystumenn flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, sem höfðu forystu um að leiða málið í gegnum þingnefndir á árunum 2014 til 2016, mundu nýta frestinn til að leggja eitthvað nýtt til mála.

Samið var um að utanríkismálanefnd efndi til tveggja eða þriggja funda dagana 13. til 23. ágúst. Hvorki Sigmundur Davíð né Gunnar Bragi hafa tekið þátt í störfum utanríkismálanefndar. Ólafur Ísleifsson sem kjörinn var á þing fyrir Flokk fólksins sat fundi nefndarinnar fyrir hönd Miðflokksins.

Eftir fundina í utanríkismálanefnd segir Ólafur í Morgunblaðinu í dag (20. ágúst) að heimsókn Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst landsréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar, fyrrv. prófessors við lagadeild Háskóla Ísla „hafi verið markverðust“. Að mati Ólafs skyldu þeir félagar eftir glufu í málinu sem hann taldi Miðflokkinn og aðra andstæðinga þriðja orkupakkans geta nýtt sér.

Það hefði minnkað heilabrot um lögfræðilega hlið málsins teldu menn sér ekki fært að teygja og toga það sem frá Stefáni Má og Friðriki Árna kemur. Eftir fundinn með utanríkismálanefnd sendu þeir nefndinni bréf og tóku af öll tvímæli um að nauðsynlegir fyrirvarar við innleiðingu þriðja orkupakkans hefðu verið settir fram nógu skilmerkilega.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis, birti bréfið á Facebook-síðu sinni að kvöldi 19. ágúst. Í upphafi bréfsins segir:

„Eins og fram kom hjá okkur á fundi utanríkismálanefndar í dag teljum við mikilvægt að fyrirvarar Íslands, við upptöku og innleiðingu EES-gerða samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, séu settir fram með skýrum hætti, þ.e. fyrirvarar um stjórnarskrá og um forræði Íslands á lagningu sæstrengs.

Séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e.a.s. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga.“

Miðflokkurinn missti þar með haldreipi sitt. Allar tilraunir af hálfu andstæðinga þriðja orkupakkans til að tala niður fyrirvara ríkisstjórnarinnar þjóna þeim tilgangi einum að veikja varnir Íslendinga í málinu og ýta undir tortryggni. Er dapurlegt að andstæðingar málsins telji þetta málstað sínum helst til framdráttar.

Hér var birt mynd frá furðulegum en fámennum fundi í Safnahúsinu föstudaginn 16. ágúst þegar kynnt var skýrsla samtakanna Orkunnar okkar gegn þriðja orkupakkanum.

68865242_747663055703934_2447404113382604800_nEins og sjá má birti Orkan okkar þessar myndir á Facebook en þær eru frá borgarafundi í Iðnó sunnudaginn 18. ágúst sem haldinn var að frumkvæði Lýðræðisflokksins.

Sunnudaginn 18. ágúst var „borgarafundur allra landsmanna“ haldinn í „hátíðarsal Iðnó“ að frumkvæði Lýðræðisflokksins, nýs stjórnmálaafls sem Benedikt Lafleur hefur stofnað. Fundarefnið var: Er Ísland til sölu – er lýðræðið í hættu? Hvorki á netinu né annars staðar hafa birst myndir af fundarmönnum en fundarboðandi og síðan Orkan okkar  birtu meðfylgjandi myndir á Facebook.