26.8.2019 7:28

Miðflokkur í EES-vanda

Það er erfitt að átta sig á hvert Miðflokkurinn vill fara gagnvart EES. Í Bretlandi mælir formaðurinn með EES-aðild við Breta en á Íslandi mælir hann með andstöðu við EES.

Það hefur eðlilega vakið nokkra athygli hér á landi að [Sigmundur] Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifar grein í breska vikuritið The Spectator sem fyrrverandi forsætisráðherra Íslands þar sem hann ber lof á aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og hvetur Breta til að gerast að minnsta kosti „tímabundið“ aðila að EES til að losna á mjúkan og mildilegan hátt undan ESB-aðildinni. Málar hann haginn af EES-aðild svo björtum litum að einkennilegt er að hann skuli leggja sérstaka áherslu á „tímabundna“ aðild.

Iceland_Centre_Party_logo

Breskir lesendur yrðu undrandi ef þeir vissu að á heimavelli legði Sigmundur Davíð og flokkur hans sig sérstaklega fram um að gera aðildina að EES tortryggilega með áróðri um að í henni felist aðför að fullveldi Íslands og auðlindarán, nú með því að seilast til ítaka í orkulindum Íslendinga.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og annar tveggja varaformanna flokksins, skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 24. ágúst þar sem hún fjallar um baráttu Nei til EU, norsku samtakanna gegn EES, gegn þriðja orkupakkanum. Í upphafi greinarinnar sést að þingmaðurinn skilur ekki hvað felst orðunum „stjórnskipulegur fyrirvari“. Á Íslandi er fyrirvarinn settur vegna þess að breyta þarf lögum vegna innleiðingar texta sem hefur verið tekinn upp í EES-samninginn. Hvort rannsaka þurfi stjórnlög vegna máls er matsatriði í hverju tilviki án tillits til stjórnskipulegs fyrirvara.

Að varaformaður og þingmaður flokks sem hefur helgað sig baráttunni gegn þriðja orkupakkanum mánuðum saman hafi ekki enn á hreinu hvernig málið stendur að íslenskum lögum segir meira en mörg orð um metnaðinn innan flokksins til að skýra satt og rétt frá öllum staðreyndum.

Í Noregi vilja samtökin Nei til EU láta á það reyna fyrir dómstólum hvort norska ríkisstjórnin hafi beitt réttri stjórnarskrárgrein við atkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann 22. mars 2018. Með því að vitna í Steán Má Stefánsson, fyrrv. prófessor, telur varafomaður Miðflokksins „ekki ólíklegt að samtökin Nei til EU hafi eitthvað til síns máls er þetta atriði varðar “! Ber að skilja greinina á þann veg að norsku samtökin sæki rök til Stefáns MásÐ? Dómari í Noregi fær 23. september það verkefni að taka afstöðu til þess hvort máli Nei til EU verði vísað frá eða það verði tekið til efnislegrar meðferðar. Komi til hennar hefst langt ferli fyrir norskum dómstólum. Boðskapur Önnu Kolbrúnar Árnadóttur er að enn eigi að fresta afgreiðslu þriðja orkupakkans á alþingi til að ljá málstað Nei til EU stuðning og vinna þannig gegn EES-samstarfinu.

Sigmundur Davíð sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi að morgni sunnudags 25. ágúst að hann væri ekki búinn að missa alla von um að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafnaði orkupakkanum. Telur Gunnar Bragi Sveinsson, annar varaformaður Miðflokksins í Morgunblaðinu 26. ágúst að Sigmundur Davíð tali þarna fyrir grasrót Sjálfstæðisflokksins. Óljóst er um samband miðflokksmanna við hana en í Fréttablaðinu mánudaginn 26. ágúst segir Kristinn Haukur Guðnason blaðamaður:

„Miðflokksstjarnan Styrmir Gunnarsson hefur verið virkur í flokksstarfinu síðustu vikur. Hann safnar nú atkvæðum fyrir flokkinn í nafni orkupakkans og andstöðunnar við innri markað Evrópu. Þótti Styrmir fara á kostum í erindi í Duushúsum í Kef lavík og í öðru erindi á Hótel Selfossi. Honum er illa við EES. Nóg að gera hjá okkar manni en fátt segir af mætingu.“