Miðflokkur án utanríkisstefnu
Hvað veldur þögn Miðflokksins um mikilvægasta lið í hagsmunagæslu þjóðarinnar á mestu umbrotatímum í alþjóða- og öryggismálum frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar?
Miðflokkurinn lætur eins og honum sé annt um að gæta hagsmuna Íslands undir slagorðinu Áfram Ísland! Hann hafi þar sérstöðu umfram aðra flokka. Miðflokkurinn birti þó kosningaáherslur sínar laugardaginn 9. janúar án þess að einu orði sé minnst á utanríkis- og öryggismál.
Engin skýring er á hvað veldur þessari þögn um þennan mikilvæga lið í hagsmunagæslu þjóðarinnar á mestu umbrotatímum í alþjóða- og öryggismálum frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar.
Stafar þögnin af því að flokkurinn sé svo ófullburða að þar geti menn ekki rætt þessi mál til að sameinast um eina stefnu? Er flokkurinn að þessu leyti í sömu sporum og vinstri-grænir sem þegja um öryggi og varnir Íslands af því að þeir eru bæði andvígir aðild að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin?
Má rekja þögnina til þess að innan Miðflokksins séu menn sem telja brýnasta utanríkismálið að opna að nýju sendiráð Íslands í Moskvu til að þóknast Pútin? Og bjóða hingað að nýju rússneskum sendiherra sem stjórnar hópi undirróðursmanna frá Túngötunni? Flytur níðfréttir um Íslendinga til rússneskra ríkisfjölmiðla vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Hvað með bókun 35 við EES-samninginn sem hefur gilt hér í rúm 30 ár og lengst af án þess að Íslendingar fái af lagatæknilegum ástæðum notið réttindanna sem í henni felast? Hvers vegna segir Miðflokkurinn ekkert um þetta mál? Þegir hann þunnu hljóði af því að hann veit upp á sig skömmina vegna lyga um að bókun 35 brjóti í bága við stjórnarskrána? Eða þorir hann ekki að lýsa andstöðu við breytingu á lögum sem miða að því að skapa Íslendingum jafna stöðu og aðrir hafa á EES-svæðinu?
Það er brýnna fyrir Miðflokkinn en aðra flokka að lýsa hvaða stefnu hann hefur í þeim málum sem hér er lýst vegna þess að í mörgu tilliti dregur hann dám af flokkum í Evrópu sem skapa sér sérstöðu með friðþægingarstefnu gagnvart Vladimir Pútin. Er Miðflokkurinn einn þessara flokka? Það er rangt að lýsa grobbinn yfir því að undir forystu Miðflokksins verði landinu stýrt af skynsemi ef enginn veit hvert flokkurinn vill fara í utanríkis- og varnamálum.