24.5.2019 9:13

Miðflokksmönnum fjarstýrt frá Noregi

Miðflokksmenn eru betri og meiri Íslendingar en allir aðrir. Þetta segja þeir sem dansa eftir norskri pípu hver við annan í þingsalnum nótt eftir nótt.

„Íslenska þjóðþingið, Alþingi, hefur setið á fundum dag og nótt í þessari viku til að afgreiða aðild að orkustefnu ESB. Til þessa hefur umræðan staðið í 60 tíma,“ þannig hefst frétt eftir Alf Bjarne Johnsen á vefsíðu norska blaðsins Verdens Gang (VG) fimmtudaginn 23. maí.

Þá segir einnig í fréttinni:

„Í ræðustól alþingis lesa menn ljóð og stunda tímunum saman upplestur úr sögu íslenska vatnsaflsvirkjana á meðan aðrir þingmenn kvarta undan hvað það kostar að fara í íslenskar sundlaugar.

Á fréttanetsíðunni Montel þar sem fylgst er með evrópska orkumarkaðnum segir að það séu þingmenn íslenska Miðflokksins sem standi í ræðustólnum dag og nótt í þessari viku til að lýsa andstöðu við Acer og þriðja orkupakka ESB.[...]

„Viti ég rétt eru það þingmenn sem styðja ekki tilskipunina sem reyna að hindra að alþingi taki afstöðu fyrir sumarleyfi,“ segir Kathrine Kleveland, formaður Nei til EU við VG.

Átökin á Íslandi eru eins og þau sem bar hátt í Noregi í fyrra: Þau snúast um hvort menn eru með eða á móti aðild að orkustofnun ESB, Acer, og þriðja orkupakka ESB.

Meirihluti stórþingsins samþykkti að innleiða orkustefnu ESB í norsk lög. Þau verða ekki hluti af EES-samningnum nema þing Íslands og Liechtenstein veiti einnig samþykki sitt.[...]

„Það er ekkert leyndarmál að við höfum haft samband við systursamtök okkar á Íslandi í þessu máli. Það er mikil andstaða meðal íslensks almennings við að verða hluti af orkustefnu ESB,“ segir Kleveland í Nei til EU.“

1133977Þessi mynd eftir Hara birtist á mbl.is að morgni föstudags 24. maí. Þar er sagt frá því að fundur standi enn á alþingi klukkan um 09.00 að morgni en hann hófst 15.30 fimmtudaginn 23. maí. Þetta sé sá funduri sem lengst hafi staðið fram á morgun. Það eru miðflokksmenn sem tala hver við annan í þingsalnum. Fremst á myndinni er  Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri alþingis, Steingrímur J. Sigfússon þingforseti les úr skjali.

Eðlilegt er að Norðmenn fylgist af nokkrum áhuga með málþófinu sem miðflokksmenn hafa stofnað til hér á landi. Allar tafir á að íslensk stjórnvöld standi við EES-skuldbindingar sínar í þessu máli valda Norðmönnum erfiðleikum. Okkur er Acer þó ekki skylt eins og Norðmönnum sem selja orku um sæstrengi.

Í fréttinni er enn einu sinni staðfest aðild norsku samtakanna Nei til EU að málatilbúnaði maraþonræðumannanna.

Miðflokksmenn drógu alþingi niður í svaðið með framgöngu sinni á Klausturbar 20. nóvember 2018. Nokkrir úr hópi þeirra sáu sér þá þann kost vænstan að gera hlé á þingsetu sinni á meðan hneykslisalda fór um samfélagið.

Líta verður á atlöguna að heilbrigðri skynsemi á alþingi núna sem tilraun miðflokksmanna til sjálfstyrkingar eftir skammdegisáfallið. Kjarni málflutnings þeirra er þessi: Miðflokksmenn eru betri og meiri Íslendingar en allir aðrir. Þetta segja þeir sem dansa eftir norskri pípu hver við annan í þingsalnum nótt eftir nótt.

Þegar Sigmundur Davíð fór í framboð vorið 2013 sem verðandi forsætisráðherra fór hann í viðtal á Þingvöllum við Fréttablaðið. Blaðamaðurinn var með fána með sér. Var hann dreginn að húni á Lögbergi og Sigmundur Davíð stillti sér upp fyrir forsíðumyndina. Þarna birtist sama dómgreindarleysið og í þingsalnum nú, að Sigmundur Davíð sé meiri Íslendingur en aðrir.